Þjóðhátíð 2021 verður frestað og er áætlað að hún verði haldin í einhverri mynd í lok sumars. Þetta segir í tilkynningu frá þjóðhátíðarnefnd en áætlað er að endanleg ákvörðun muni liggja fyrir í síðasta lagi 14. ágúst.
Fólk sem á þegar miða á Þjóðhátíð mun standa frammi fyrir því að fá miðann endurgreiddann, flytja miðann yfir á Þjóðhátíð 2022 eða einfaldlega styrkja ÍBV um andvirði miðans.
Endurgreiðslur á þjóðhátíðarmiðum munu hefjast í upphafi ágústmánaðar en endurgreiðsla á herjólfsmiðum sem voru keyptir á dalurinn.is fylgja beiðnum um endurgreiðslu á miðum.
Þeir sem vilja aftur á móti enn þá ferðast til Eyja um verslunarmannahelgina eru beðnir um að hafa samband við skrifstofu Herjólfs til þess að gera nýja bókun, segir í tilkynningunni.
Mikil óvissa hefur ríkt um Þjóðhátíð 2021 síðustu vikur í kjölfar hækkaðrar tíðni kórónuveirusmita en ljóst var á föstudaginn þegar tilkynnt var um nýjar takmarkanir innanlands að hátíðin myndi ekki fara fram á þeim tíma og í þeirri mynd sem áætlað hefur verið hingað til.
Fyrr í dag var tilkynnt að öll dagskrá sunnudagskvöldsins 1. ágúst muni fara fram sem streymisviðburður, þar á meðal er brekkusöngurinn frægi.