Titrings gætir víða í skemmtanabransanum

Óvíst er hvernig stórir viðburðir á borð við Hinsegin daga …
Óvíst er hvernig stórir viðburðir á borð við Hinsegin daga og menningarnótt fara fram í ár vegna nýrra samkomutakmarkana. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ljóst er að töluverðs titrings gætir í viðburða- og skemmtanabransanum þessa dagana eftir að stjórnvöld hertu á ný sóttvarnaaðgerðir innanlands til þess að sporna við dreifingu Delta-afbrigðisins svokallaða. Eru þetta mikil vonbrigði fyrir landann og skipuleggjendur hátíðarhalda, sem margir hverjir ætluðu að halda viðburði á næstu dögum og vikum. Margir hafa lýst yfir svokallaðri „deja vu“, eða nokkurs konar endurupplifun, enda ástandið ekki ósvipað því sem var fyrir akkúrat ári er herða þurfti takmarkanir á ný og flestum hátíðarhöldum og viðburðum annaðhvort frestað eða aflýst.

Tónlistarhátíðin Innipúkinn er meðal þeirra hátíða sem hefur verið aflýst. Ásgeir Guðmundsson, framkvæmdastjóri Innipúkans, segir mikil vonbrigði að hafa þurft að aflýsa hátíðinni annað árið í röð. Hann segir tekjutapið óljóst en síðustu daga hafi skipuleggjendur reynt að takmarka skaðann.

Láta þetta ekki stoppa sig

„Því miður verða Hinsegin dagar ekki eins og skipulagt var en dagarnir munu að sjálfsögðu fara fram og við látum þetta ekki stoppa okkur,“ segir Sigurður H. Starr Guðjónsson, framkvæmdastjóri Hinsegin daga. Hann segir Hinsegin dagana koma til með að fara fram á einn eða annan hátt, þrátt fyrir að gleðigangan og útihátíð í Hljómskálagarði verði ekki með hefðbundnum hætti, muni verða fundnar lausnir og unnið í takt við takmarkanir, almannavarnir og Reykjavíkurborg. „Við stefnum á að halda alla þá viðburði sem við getum haldið og vera þá með eitthvað í streymi og eitthvað í persónu en með tilliti til takmarkana.“

Salan hafði tekið vel við sér

Hrefna Sif Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Tix miðasölu, segir söluna hafa tekið vel við sér í sumar en nú sé verið að fresta og aflýsa viðburðum sem átti að halda á næstu tveimur vikum. „Verkefnið okkar núna er að endurgreiða miða og færa til, láta miðakaupendur vita af breytingum og þess háttar. Það var náttúrulega fjöldi viðburða sem átti að fara fram á næstu vikum en nú verðum við bara að sjá hvernig þetta þróast varðandi lok ágúst og haustið.“ Hrefna segir að lausnir sem notast var við síðasta ár séu tilbúnar aftur til notkunar, líkt og sala á kóðum sem virkja slóðir að tónlistarstreymum og þess háttar, „við erum nú þegar tilbúin ef til þess kemur en við vonum auðvitað bara að við höfum lifandi viðburði í haust.“

Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, segir að verið sé að meta stöðuna en það séu engir stórir viðburðir skipulagðir á næstu tveimur vikum. „Það er í rauninni ekki fyrr en eftir þann tíma sem allt fer af stað með stórum viburðum í Eldborg og svo framvegis. Miðað við þær takmarkanir sem núna eru í gildi, 200 manna fjöldatakmarkanir og eins metra reglu, kunnum við það náttúrulega mjög vel og höfum oft og lengi unnið með slíkar takmarkanir.“ Hún segir jafnframt að skipuleggjendur haldi ró sinni og taki því sem að höndum ber. Staðan verði metin ef hertari aðgerðir koma til. „Svo erum við eins og allir aðrir að velta fyrir okkur hvernig staðan verður á menningarnótt.“

„Engin hátíð er eins“

„Þetta var allan tímann mjög skýrt í okkar huga að við myndum aldrei fara af stað ef það væri einhvers konar áhætta sem myndi fylgja þessu,“ segir Júlíus Júlíusson, framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla á Dalvík. Hann segir að allir skipuleggjendur hafi verið sammála um það þann 15. apríl, þegar tekin var sú ákvörðun um að aflýsa hátíðinni, að um áhættu væri að ræða. Hann segir að það hefði verið afar slæmt ef ákvörðunin hefði ekki verið tekin svo snemma og að verið væri að aflýsa henni núna. „Ég skil kollega mína allflesta mjög vel, engin hátíð er eins, fyrir suma er þetta fjáröflun og aðra er það ekki og rekið á núlli þannig að á bak við hverja hátíð eru mismunandi aðstæður.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert