Skjálfti undir Mýrdalsjökli

Horft til vesturs yfir Mýrdalsjökul.
Horft til vesturs yfir Mýrdalsjökul. mbl.is/RAX

Jarðskjálfti, 3,1 að stærð, mældist undir Mýrdalsjökli um klukkan hálfeitt eftir hádegi í dag. 

Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir skjálftann ekki óvenjulegan.

„Við sjáum yfirleitt fleiri skjálfta á þessu svæði á sumrin en á veturna,“ segir hún í samtali við mbl.is og bætir við að þessu valdi sumarbráðnun og uppsöfnun vatns í þá sigkatla sem eru í jöklinum.

Jökulhlaup ekki yfirvofandi

„Það verða þarna margir ísskjálftar, en þessi er nú stærri en svo,“ segir Salóme um skjálftann sem mældist í dag.

Þekkt er að hlaup verði undan Mýrdalsjökli og leiði út í Múlakvísl, sem rennur úr suðaustanverðum jöklinum. Í ánni er Veðurstofan með rafleiðnimæla, sem segja til um hvort jarðhitavatn renni í ána, auk þess sem vatnshæðin er stöðugt mæld.

„Við metum það svo að það sé engin yfirvofandi hætta á jökulhlaupi, en við erum sífellt að vakta stöðuna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert