Engin ástæða til að spá hamfaragosi

Katla nýtur þess vafasama heiðurs að vera eitt hættulegasta eldfjall …
Katla nýtur þess vafasama heiðurs að vera eitt hættulegasta eldfjall landsins. Rax / Ragnar Axelsson

Tveir skjálft­ar af stærð 3,2 mæld­ust í norðaust­an­verðri Kötlu­öskju þegar klukk­an var tutt­ugu mín­út­ur geng­in í átta í gærkvöldi, að því er fram kemur til­kynn­ingu frá Veður­stofu Íslands. Skjálftarnir eru þó ekki vísbending um gosóróa og því engin ástæða til að spá hamfaragosi þar á næstunni að sögn Einars Péturssonar jarðeðlisfræðings.

„Katla er náttúrulega fræg fyrir að vera með stöðuga skjálftavirkni þannig að það kemur ekkert á óvart. Það sem hefur kannski heldur komið á óvart er hvað hún er búin að vera óvenjuróleg síðustu árin. Núna er hún að ná sínu venjulega ástandi,“ segir Einar í samtali við mbl.is.

Lítið er vitað um það hvers vegna jarðhræringar í Kötlu hafa verið minni en venjulega og enn minna vitað um það hvenær mun gjósa í Kötlu næst að sögn Einars.

„Það er margt um Kötlu sem er lítið vitað um. Þetta er náttúrulega mjög virk eldstöð og skjálftavirknin í Kötlu þýðir náttúrulega að hún er lifandi og hún mun gjósa einhvern tímann aftur, en við þurfum að sjá eitthvað meira óvenjulegt áður en við förum að lýsa því yfir að það sé komið að næsta gosi. Þannig þetta er í sjálfu sér ekki vísbending um gos.“

Síðasta stóra eldgosið í Kötlu var árið 1918 en nokkrar vísbendingar eru um það að hið minnsta þrjú eldgos hafi orðið þar síðan þá samkvæmt upplýsingum Einars.

„Það var á árunum 1955, 1999 og 2011. Þá sýna mælar sumsé eitthvað sem lítur alveg út eins og eldgos en þá náðu gosin ekki upp úr jöklinum. Það þarf nefnilega svolítið stórt gos til að ná upp úr svona þykkum jökli.“

Stórt Kötlugos gæti haft alvarlega afleiðingar

Inntur eftir því segir Einar áhrifin af gosi í Kötlu ráðast af stærð þess. Stórt Kötlugos gæti þó haft alvarlegar afleiðingar.

„Allar eldstöðvar eru þess eðlis að stundum eru stór gos í þeim og stundum lítil. Stór Kötlugos eru alvarlegir atburðir eins og gosið 1918. Það var stórt gos og hafði mikil áhrif. Frá því féll mikil aska og olli það miklu jökulhlaupi sem náði niður á Mýrdalssand og rauf þar vegasamband. Ef það kemur svoleiðis gos hefur það talsverð áhrif en það fer líka eftir því hve lengi gosið stendur. Svo geta líka komið gos sem eru svo lítil að það taki í raun og veru enginn eftir þeim. Á nokkur þúsund ára fresti gjósa svo hamfaragos og það er stóralvarlegt mál þegar það gerist.“

Þótt jörð við Kötlu sé tekin að hristast á ný er óþarfi að búast við því versta að sögn Einars.

„Þótt það komi skjálfti í Kötlu núna er engin ástæða til að spá einhverjum hamfaragosum þar. Katla getur líka gosið litlum penum gosum.

Þetta þarf allt að skoða með eins víðum gleraugum og hægt er og engin ástæða til að gera ráð fyrir því versta eins og gosið á Reykjanesi hefur sýnt okkur. Það hafa margir spáð hamförum á Reykjanesi í gegnum tíðina og svo þegar gosið kom þar þá reyndist það bara vera svona skemmtileg flugeldasýning.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert