Flestir bólusettra og smitaðra fengu Janssen

Flestir af þeim sem hafa smitast og eru fullbólusettir fengu …
Flestir af þeim sem hafa smitast og eru fullbólusettir fengu bóluefni Janssen. 38% smitaðra eru óbólusettir. Um 10% landsmanna eru óbólusettir. AFP

Af þeim sem eru fullbólusettir og greindust með kórónuveiruna í júlí voru 345 með bóluefni Janssen eða 53%. Þetta kemur fram í svari embættis landlæknis við fyrirspurn mbl.is.

Þá voru 168 (26%) með Pfizer, 102 (16%) með AstraZeneca eða AstraZeneca ásamt mRNA-bóluefni í seinni skammti. Þá voru 25 einstaklingar (3%) í þessum hópi með Moderna.

Þessi hlutföll verða á næstu dögum greind með tilliti til aldurshópa og verður sú greining birt á covid.is og uppfærð vikulega.

39% smitaðra ekki með bólusetningu

Í júlímánuði greindust 1.059 manns með Covid-19 og voru 39% smitaðra óbólusett. Alls voru 640 smitaðra búnir að fá bólusetningu en 419 ekki, en um 88% landsmanna yfir 16 ára eru bólusett.

Ekki fengust svör við því hve margir af þeim sem hafa verið lagðir inn á spítala í júlímánuði með Covid-19 voru bólusettir, þótt mbl.is hafi greint frá því hvort þeir sem lagðir hafa verið inn hafi verið bólusettir í einstökum tilfellum. 

Þó verður greint frá því bráðlega og þær tölur mögulega birtar á covid.is að því er fram kemur í svari embættis landlæknis.

Frekari greining með tilliti til aldurshópa birt á næstu dögum

Alls voru 126.176 hér á landi bólusettir með bóluefni Pfizer og af þeim greindust 168 eða 0,13%. Þeir sem fengu bóluefni Janssen voru 53.150 talsins og 345 þeirra smituðust, eða 0,64%. 55.040 fengu AstraZeneca eða AstraZeneca ásamt öðru efni og smituðust 102 þeirra eða 0,18%. Loks fengu 19.974 bóluefni Moderna og smituðust 25 þeirra, eða 0,12%.

Vera má að þessar tölur gefi vísbendingar um virkni bóluefnanna en þó er vert að taka fram að hópasamsetning smitaðra kunni að hafa áhrif. Þá leiddi rannsókn sem birt var á vef New Eng­land Journal of Medic­ine í ljós að bóluefnin virka misvel á Delta-afbrigðið; Pfizer veitti 88% vörn eftir tvo skammta en Astra Zeneca 74,5% vörn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert