Staðgengill sóttvarnalæknis telur enn of marga greinast með kórónuveirusmit utan sóttkvíar. 80 smit greindust utan sóttkvíar á fimmtudag en í heild greindust að minnsta kosti 112 smit innanlands á fimmtudag.
Þeim gæti fjölgað þar sem sýni sem berast sýkla- og veirufræðideild Landspítala seint á kvöldin eru ekki greind fyrr en að morgni næsta dags. Hafi fleiri smit greinst koma þau fram í uppfærðum tölum á covid.is í dag.
„Það sem [smittölurnar] sýna er þó að við erum með miklu fleiri smit en nokkru sinni fyrr, dag eftir dag,“ segir Kamilla S. Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.
Enn er langstærstur hluti hinna smituðu einungis með væg einkenni Covid-19 en nokkrir hafa veikst alvarlega undanfarið.