Einn á gjörgæslu í öndunarvél

Frá gjörgæsludeild Landspítala.
Frá gjörgæsludeild Landspítala. Ljósmynd/Landspítali

Fimmtán ein­stak­ling­ar liggja nú inni á Land­spít­al­an­um með Covid-19. Tveir eru á gjör­gæslu og er ann­ar þeirra í önd­un­ar­vél. Þetta staðfesti Már Kristjáns­son, yf­ir­lækn­ir á smit­sjúk­dóma­deild Land­spít­al­ans, í sam­tali við mbl.is. RÚV greindi fyrst frá.

Þetta mun vera í fyrsta sinn í þess­ari fjórðu bylgju far­ald­urs­ins sem ein­stak­ling­ur hef­ur þurft á önd­un­ar­vél að halda.

Að sögn Más er það mjög breyti­legt hvað hrjá­ir þá ein­stak­linga sem liggja inni. „Allt frá því að vera önd­un­ar­erfiðleik­ar hjá þeim sem eru með lungna­bólgu og svo eru efna­skipta­vanda­mál og óráð og annað slíkt sem ger­ir það að verk­um að fólk þarf að liggja á spít­ala.“

Már Kristjánsson.
Már Kristjáns­son. mbl.is/Á​sdís Ásgeirs­dótt­ir

Gæti þurft að opna aðra deild

Bú­ist er við því að smit­sjúk­dóma­deild­in gæti fyllst á næstu tveim­ur sól­ar­hring­um og þar af leiðandi gæti komið til þess að opna þyrfti aðra deild fyr­ir Covid-sjúk­linga.

Aðspurður seg­ir Már það segja sig sjálft að ef opna þurfi aðra deild dragi það úr getu Land­spít­al­ans til að sinna öðrum verk­efn­um og bend­ir Már á að nú sé einnig or­lofs­tími starfs­manna í há­marki.

Már seg­ir að það hafi þurft að kalla á starfs­fólk úr sum­ar­fríi. „Þetta verður ekki gert öðru­vísi en með fólki og þeir sem eru í sum­ar­fríi hafa þurft að koma,“ seg­ir Már og bend­ir á að staðan á Land­spít­al­an­um sé að þyngj­ast.

1.200 í eft­ir­liti á Covid-göngu­deild

Aðspurður seg­ir Már að um 1.200 ein­stak­ling­ar séu í eft­ir­liti á Covid-göngu­deild. Þrír þeirra eru rauðmerkt­ir, á þriðja tug eru gul­merkt­ir en aðrir eru græn­merkt­ir.

Sam­kvæmt litakóða spít­al­ans eru þeir gul­merkt­ir sem hafa auk­in ein­kenni og rauðmerkt­ir sem hafa al­var­leg ein­kenni, til að mynda mik­il andþyngsli og háan hita. Græn­merkt­ir hafa væg eða eng­in ein­kenni þrátt fyr­ir smit. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert