Einn á gjörgæslu í öndunarvél

Frá gjörgæsludeild Landspítala.
Frá gjörgæsludeild Landspítala. Ljósmynd/Landspítali

Fimmtán einstaklingar liggja nú inni á Landspítalanum með Covid-19. Tveir eru á gjörgæslu og er annar þeirra í öndunarvél. Þetta staðfesti Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, í samtali við mbl.is. RÚV greindi fyrst frá.

Þetta mun vera í fyrsta sinn í þessari fjórðu bylgju faraldursins sem einstaklingur hefur þurft á öndunarvél að halda.

Að sögn Más er það mjög breytilegt hvað hrjáir þá einstaklinga sem liggja inni. „Allt frá því að vera öndunarerfiðleikar hjá þeim sem eru með lungnabólgu og svo eru efnaskiptavandamál og óráð og annað slíkt sem gerir það að verkum að fólk þarf að liggja á spítala.“

Már Kristjánsson.
Már Kristjánsson. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Gæti þurft að opna aðra deild

Búist er við því að smitsjúkdómadeildin gæti fyllst á næstu tveimur sólarhringum og þar af leiðandi gæti komið til þess að opna þyrfti aðra deild fyrir Covid-sjúklinga.

Aðspurður segir Már það segja sig sjálft að ef opna þurfi aðra deild dragi það úr getu Landspítalans til að sinna öðrum verkefnum og bendir Már á að nú sé einnig orlofstími starfsmanna í hámarki.

Már segir að það hafi þurft að kalla á starfsfólk úr sumarfríi. „Þetta verður ekki gert öðruvísi en með fólki og þeir sem eru í sumarfríi hafa þurft að koma,“ segir Már og bendir á að staðan á Landspítalanum sé að þyngjast.

1.200 í eftirliti á Covid-göngudeild

Aðspurður segir Már að um 1.200 einstaklingar séu í eftirliti á Covid-göngudeild. Þrír þeirra eru rauðmerktir, á þriðja tug eru gulmerktir en aðrir eru grænmerktir.

Sam­kvæmt litakóða spít­al­ans eru þeir gulmerktir sem hafa aukin einkenni og rauðmerktir sem hafa alvarleg einkenni, til að mynda mikil andþyngsli og háan hita. Grænmerktir hafa væg eða engin einkenni þrátt fyrir smit. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka