Einn heimilismaður og einn starfsmaður hjúkrunarheimilisins Grundar greindust með kórónuveiruna í fyrradag. Alls hafa nú þrír heimilismenn og nokkrir starfsmenn á Grund greinst með veiruna, auk eins starfsmanns á hjúkrunarheimilinu Ási, sem rekið er af Grundarheimilunum.
Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna, segir að fáir hafi þurft að fara í sóttkví vegna þeirra sem greindust í fyrradag.
Þeir heimilismenn sem smituðust fyrstir, á fimmtudag í þarsíðustu viku, hafa verið einkennalitlir eða -lausir frá greiningu. Gert er ráð fyrir að þeir útskrifist úr einangrun á fimmtudag.
Gísli segir að aðrir sem greinst hafa, heimilismaður og nokkrir starfsmenn, séu sömuleiðis einkennalausir.