Velferðarnefnd Alþingis fundar nú um stöðuna hér á landi vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.
„Tilefnið er alvarleg staða í veirumálum. Við þurfum að fá allar bestu upplýsingar sem við getum fengið til að meta stöðuna,“ segir Helga Vala Helgadóttir, formaður nefndarinnar.
Fátítt er að nefndir Alþingis komi saman utan starfstíma þingsins, sem hefur nú verið slitið fyrir alþingiskosningar í haust.
Fundurinn hófst klukkan 13. Gestir fundarins eru Alma Möller landlæknir og Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, Már Kristinsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans, Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræðum, og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Helga Vala segir að athyglinni verði ekki síst beint að stöðu Landspítalans til að sinna öðrum verkefnum en veirunni.
„Ég óskaði eftir fundinum og það voru allir sammála því. Við þurfum að fá beinar upplýsingar um stöðuna, bæði stöðuna á Landspítalanum til þess að sinna þeim verkefnum sem þangað berast, og svo auðvitað fá bestu mögulegu upplýsingar um gang veirunnar og hvaða stöðu við stöndum frammi fyrir. Það eru margar sögur í gangi um hversu alvarleg þessi staða er og við sem fastanefnd Alþingis þurfum að fá þessar upplýsingar,“ segir Helga Vala.
„Það væri óábyrgt af okkur að spyrja ekki þessara spurninga.“