Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og fulltrúar Kennarasambands Íslands mættu á fund allsherjar- og menntamálanefndar fyrr í dag. Páll Magnússon, formaður nefndarinnar, segir fundinn hafa gengið vel og greiðlega fyrir sig.
„Menntamálaráðherra lýsti þeirri meginstefnu sem fylgt verður núna, að skólahald verði án takmarkana og starfsemi verði með eðlilegum hætti strax í upphafi skólaárs núna í haust,“ segir Páll.
Hann bætir við að menntamálaráðherra hafi ekki útlistað hvernig þetta yrði útfært út frá sóttvarnarsjónarmiðum; þá hvort það verði grímuskylda, hólfaskipting eða varðandi bólusetninga barna milli 12-15 ára.
„Hún svaraði ekki í smáatriðum enda er það ekki hennar að svara fyrir hvernig er staðið að þessu tæknilega séð.“
Páll telur samtöðu ríkja varðandi þessa stefnu en segir að alls kyns skoðanir vera á lofti sérstaklega hjá kennurum og skólastjórnendum, en Kennarasambandið sé sammála þessari stefnu.
Guðmundur Andri Thorsson, varaformaður nefndarinnar, tekur undir með Páli að fundurinn hafi gengið vel fyrir sig en lítið af nýjum upplýsingum hefðu komið fram og fundurinn hefði í raun ekki skilað því sem hann var að vonast eftir.
„Mér finnst eins og ríkisstjórnin viti ekki alveg í hvorn fótinn hún eigi að stíga. Það kom fram hjá menntamálaráðherra að það sé stefnt að því að skólastarf verði haldið með eðlilegum hætti en leiðirnar til þess að svo megi verða, eru óljósar,“ segir Guðmundur.
Hann telur að stjórnvöld verði að fara taka ákvarðanir varðandi skólahald og koma fram með skýra áætlun hvernig hömlulaust skólahald yrði háttað.
„Við erum í óvissuástandi og þegar það er í óvissuástand þá segir mín eðlishvöt að fara með gát. Taka ekki sénsa og láta fólk njóta vafans.“
Guðmundur telur að öfl innan ríkistjórnarinnar vilji helst gleyma veirunni og séu sumir farnir að hugsa um aðra hluti, á meðan að aðrir í ríkistjórninni séu raunsærri og eru tilbúnir að horfast í augu við vandann.
„Línurnar gætu skýrst á ríkistjórnarfundi á morgun, en það hefur ekki verið gefin nein dagsetning varðandi hvenær þetta verður ákveðið svo þetta er allt frekar óljóst.“