Engar stofur við skólasetningu

Fossvogsskóli.
Fossvogsskóli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er verið að vinna á fullu við undirbúning skólastarfs eftir áætlunum en það á eftir að koma endanlega í ljós hvernig upphaf skólastarfs verður,“ segir Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, teymisstjóri samskiptasviðs hjá Reykjavíkurborg.

Áform um að yngstu bekkir í Fossvogsskóla fái kennslu í nýjum kennslueiningum á lóð skólans munu ekki ganga eftir. Ljóst er að umræddar kennslueiningar verða ekki tiltækar þegar skólinn verður settur. Ástæðan er sú að skipulagsferli á svæðinu vegna þeirra stendur enn yfir. Skólinn verður settur mánudaginn 23. ágúst en grenndarkynning vegna kennslueininganna stendur til 25. ágúst.

Tillaga um skipulag skólastarfs Fossvogsskóla meðan á framkvæmdum vegna rakaskemmda stendur í húsakynnum hans næsta vetur var samþykkt í borgarráði Reykjavíkur 22. júlí. Börn í 5.-7. bekk munu fá kennslu í Korpuskóla en börn í 1.-4. bekk eiga að fá kennslu í tíu kennslustofum á lóð skólans og í húsnæði Frístundar í Útlandi.

Skoða annað tiltækt húsnæði 

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er nú til skoðunar að nýta annað tiltækt húsnæði í nágrenninu þar til leyfi fæst fyrir skólastofum á lóð skólans. Eva Bergþóra segir að vonast sé til þess að hægt verði að upplýsa foreldra um hvernig kennslu verður háttað eftir helgina. „Við erum að leita leiða til að hefja skólastarf í Fossvogsdalnum þótt það verði ekki í þessum einingum strax,“ segir hún og bætir við að öll undirbúningsvinna fyrir komu eininganna sé á áætlun.

Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu hafa framkvæmdir vegna rakaskemmda og myglu í Fossvogsskóla, sem staðið hafa yfir með hléum í tvö ár, ekki skilað tilskildum árangri. Allar þrjár byggingar skólans verða nú gerðar upp.

Karl Óskar Þráinsson, formaður foreldrafélags Fossvogsskóla, hafði ekki heyrt af því að skólastofur yrðu ekki til taks á lóð skólans við setningu hans. „Síðustu skilaboð sem við fengum voru að húsin yrðu afhent 23. ágúst og á fundi með umhverfis- og skipulagssviði var ekkert talið því til fyrirstöðu að skólinn gæti hafist í haust í dalnum. Þetta eru mikil vonbrigði ef rétt reynist.“

Taki langan tíma

Hann segir að það sé furðuleg stjórnsýsla ef það komi fólki á óvart hve langan tíma tekur að fara í gegnum grenndarkynningu. „Auk þess sem það að koma þessum skilaboðum ekki strax til skólasamfélagsins er ekki í anda þeirra bóta á upplýsingaflæði sem þau ætluðu að viðhafa. Fólk missir trúna á að kerfið sé að vinna fyrir börnin okkar við svona ítrekaðan skort á upplýsingaflæði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert