„Mannkynið er komið í kapphlaup“

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, segir aldrei hafa legið jafn ljóst …
Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, segir aldrei hafa legið jafn ljóst fyrir að mannkynið þurfi að bregðast við loftslagsbreytingum. AFP

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, segir skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar ekki koma á óvart en niðurstöður hennar undirstriki það sem áður var vitað en nú með skýrari hætti.

Hefur nú aldrei legið jafn ljóst fyrir að mannkynið er að brenna inni á tíma og að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða sem fyrst.

„Þetta er kannski ekki svo óvænt en þetta er svo skýrt að það er nú alveg ljóst að það þarf að bregðast við mjög hratt. Mannkynið er komið í kapphlaup.“

Segir hann skýrsluna fyrst og fremst horfa á vandamálið hnattrænt og að breytingar þurfi að eiga sér stað á alþjóðavísu. Sé þá helsta áhersluatriðið að draga úr notkun kola í orkuframleiðslu og ná meiri hraða í uppbyggingu sjálfbærra- og endurnýjanlegra orkugjafa.

Verðum að hætta „einnota“ hugsun

Spurður hvað það sé sem Íslendingar þurfi að fara að huga að í þessari baráttu segir hann mikilvægt að byggja upp hagkerfi sem stenst til framtíðar, hagkerfi sem viðurkennir vandamál loftslagsbreytinga. Telur hann nauðsynlegt í því samhengi að Íslendingar verði óháðir jarðefnaeldsneyti og dragi úr neysluhyggju.

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs og fyrrverandi forstöðumaður loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.
Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs og fyrrverandi forstöðumaður loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Ljósmynd/Aðsend

„Við þurfum að læra að nýta allt betur. Við erum náttúrlega mjög mikið í „einnota“ hugsun og við þurfum að komast yfir í hringrásarhagkerfið þar sem hlutirnir eru í hringrás og endurnýja sig. Þar þurfum við líka að horfa til fæðuframleiðslunnar og matarsóunar, það er mikilvægt að við náum að draga úr kolefnisspori matvæla.“

Bætir hann við að mikilvægt sé að umskiptin yfir í vistvænna hagkerfi verði hröð og skilvirk, og að þessi barátta verði ekki undir vegna flokkspólitíkur. „Það er mikilvægt að hefja þetta yfir flokkadrætti og að þetta verði ekki notað í pólitískum tilgangi í komandi kosningum.“

Öfgar í veðurfari og súrnun sjávar áhyggjuefni

Að sögn Halldórs verða Íslendingar bæði að hjálpast að við að reyna að draga úr vandamálinu en á sama tíma undirbúa sig fyrir afleiðingar loftslagsbreytinga með aðlögun.

Segir hann helstu vandamálin sem við stöndum nú frammi fyrir meðal annars vera öfgar í veðurfari, til að mynda í úrkomu, og einnig breytingar á seltustigi í hafinu og súrnun sjávar. Ekki er víst hvaða afleiðingar breytingar á sýrustiginu í sjónum kunni að hafa í för með sér en þær eru slæmar, tiltekur Halldór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert