Starfsfólk LSH taki of mörg skref

Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Ragnheiður H. Magnúsdóttir, vélaverkfræðingur og formaður tækninefndar, en hlutverk hennar er að undirbúa stefnu ríkisstjórnarinnar er lýtur að tækniþróun og nýsköpun, kveðst sannfærð um að auka mætti framleiðni Landspítalans með stafrænni umbreytingu.

Það sé skrýtið að enginn tæknimenntaður einstaklingur sé í framkvæmdastjórn spítalans.

„Ég held að það sé hægt að hagræða töluvert með því að fjárfesta í stafrænum verkefnum,“ segir Ragnheiður í samtali við Morgunblaðið.

Hópur fólks með svipaðan bakgrunn

Ragnheiður telur að ákvarðanir um stafrænar lausnir þyrftu að koma frá framkvæmdastjórn. Þjálfað fólk komi auðveldlega auga á hve mikið sparast. Enginn í framkvæmdastjórn Landspítalans búi yfir þessum skilningi.

Hún bendir á að í einkageiranum sé mikið lagt upp úr að framkvæmdastjórnir séu ekki of einsleitur hópur. Á Landspítalanum séu allir í stjórninni ýmist læknar eða hjúkrunarfræðingar, að undanskildum einum viðskiptafræðingi. Það sé ekki kjörið að vera með svo keimlíkan hóp fólks með svipaðan bakgrunn.

„Stærri fyrirtæki og opinberar stofnanir hafa lagt áherslu á stafræna umbreytingu,“ segir Ragnheiður. Landspítalinn sé líklega með eitt flóknasta upplýsingatækniumhverfi landsins.

„Það eru ótal hlutir að breytast í okkar heimi en við erum enn þá eins og árið sé 1995 á þessum spítala,“ segir Ragnheiður. Með því að nýta stafrænar lausnir færðu hamingjusamara starfsfólk og sjúklinga, að mati Ragnheiðar. Stytta megi ferla, spara sporin og veita betri þjónustu. „Ef þetta væri hátæknisjúkrahús þá væri starfsfólk að flykkjast hingað.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert