Svefnfriður íbúa í grennd við Miðbakka hefur versnað síðustu mánuði eftir að komið var fyrir nýju útisvæði þar við höfnina. Þar má finna körfuboltavöll og hjólabrettasvæði auk tveggja stórra hátalara þar sem gangandi vegfarendur geta spilað tónlist með bluetooth-tækni, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Íbúar blokkarinnar á móti fagna fallegu umhverfi og auknu mannlífi en þó er einn hængur á: Hávaði á nóttunni.
„Ég get allavega sagt þér það að í síðasta mánuði þurftum við að hringja tíu til tólf sinnum í lögregluna klukkan eitt til tvö á nóttunni,“ segir Þórir Gunnarsson, íbúi við Tryggvagötu, gegnt Miðbakka, spurður hvort af hátölurunum stafi hljóðmengun á nóttunni.
„Ég hélt nú um tíma að þetta væri hætt en síðan var þetta komið aftur á fulla ferð í gærkvöldi,“ segir Þórir en hann sendi Reykjavíkurborg erindi fyrir um tveimur vikum. „Við erum með séreinangraða glugga og allt,“ segir Þórir. Það virðist þó ekki duga enda kvarta íbúar ítrekað. „Það heyrist ekki bara í gegn, það er eins og það sé sautjándi júní alla daga.“
Ekki náðist í fulltrúa Reykjavíkurborgar við vinnslu fréttarinnar.