Tilkynnt var um að ríkjandi takmarkanir yrðu framlengdar um tvær vikur á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Reykjanesbæ síðdegis í dag. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði líklegt að línur skýrist betur á næstu tvær vikum og þá verði mögulega hægt að horfa til lengri tíma.
Hefur eitthvað verið rætt um hvað tekur við að þessum tveimur vikum liðnum?
„Já, við höfum verið að ræða það hvernig við getum séð veturinn fram undan ef við verðum enn þá að glíma við þennan faraldur,“ sagði Katrín þegar mbl.is náði tali af henni að fundi loknum. Hún hélt áfram:
„Ein ákvörðun sem við tókum um daginn, sem var að herða varnir á landamærum, hún miðar náttúrulega að því að hamla það að ný afbrigði berist inn í landið. Augljóslega erum við að horfa til aðeins lengri tíma með þá ákvörðun.“
„Við erum hins vegar ekki komin með neinar tillögur um neinar viðvarandi aðgerðir,“ sagði Katrín.
Hvort það sé eitthvað sem komi í ljós að tveimur vikum liðnum sagði Katrín að næstu tvær vikur færu í frekari úttektir á þróun veikinda hjá bólusettum og muninum á þeim gagnvart veikindum óbólusettra.
„Þannig að við vonumst til þess að eftir tvær vikur verðum við komin lengra í því að geta séð fram í tímann.“
Þá sagði hún að einnig væri verið að skoða leiðir til að menningar- og íþróttastarf komandi vetrar geti starfað innan takmarkana.
„Það sem við höfum verið að gera og þessir samráðsfundir sem við höfum verið að eiga eru líka til þess að skerpa aðeins okkar mynd á því hvernig við sjáum fyrir okkur að fara inn í veturinn.
Svandís nefndi hérna áðan samtalið við menningar- og íþróttageirann, sem lifir á því að halda viðburði, sem er mjög erfitt í núverandi takmörkunum og það er samtal sem við ætlum að eiga á næstu dögum.“