Vegna aukinnar útbreiðslu Delta-afbrigðis Covid-19 í löndum ESB og EES hvetja Lyfjastofnun Evrópu (EMA) og Evrópska sóttvarnamiðstöðin (ECDC) alla þá sem hafa ekki verið bólusettir en eru gjaldgengir í bólusetningu, eindregið til þess að hefja og ljúka ráðlögðum bólusetningum vegna Covid-19 tímanlega.
„Full bólusetning með einhverju af þeim bóluefnum sem eru samþykkt af ESB/EES veitir mikla vörn gegn alvarlegum sjúkdómi og dauða af völdum SARS-CoV-2, þ.m.t. Delta-afbrigðinu. Mestu mögulegu verndinni er náð eftir að nægilegur tími (7-14 dagar) hefur liðið frá því seinni skammturinn var gefinn,“ segir í tilkynningu á vef Lyfjastofnunar.
Þar kemur fram að bólusetning sé mikilvæg til að vernda þá sem eru í mestri hættu á alvarlegum sjúkdómi og sjúkrahúsvist, til að draga úr útbreiðslu veirunnar og koma í veg fyrir að ný afbrigði breiðist út.
„Í sumum bólusetningarherferðum getur verið ráðlegt að minnka bilið milli fyrsta og annars skammts innan leyfilegra marka, sérstaklega fyrir fólk sem er í áhættuhópi fyrir alvarlegum einkennum Covid-19 sjúkdómsins og hefur ekki náð að ljúka ráðlögðum bólusetningum,“ segir í tilkynningunni.
Fram kemur einnig að sýkingar hjá bólusettu fólki þýði ekki að bóluefni séu ekki að virka.
„Þó að virkni allra bóluefna gegn Covid-19 sem hafa markaðsleyfi innan ESB/EES sé mjög mikil, þá er ekkert bóluefni með 100% virkni. Þetta þýðir að búast má við takmörkuðum fjölda SARS-CoV-2-sýkinga meðal einstaklinga sem hafa lokið ráðlögðum bólusetningum. Aftur á móti, þegar sýkingar verða hjá fólki, geta bóluefnin, að stærstum hluta, komið í veg fyrir alvarlegan sjúkdóm og dregið mjög úr innlögnum fólks á sjúkrahús vegna Covid-19-sjúkdómsins.“