Óskhyggja að skipta sóttkví út fyrir hraðpróf

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir Photo/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að þótt það hefði verið gott að vera búin fyrr að bólusetja grunnskólabörn þá væri ekki hægt að gera allt á sama tíma. Hraðgreiningarpróf munu ekki koma í staðinn fyrir sóttkví en verið er að vinna að leiðbeiningum um notkun á slíkum prófum. 

Börn á aldrinum tólf til fimmtán ára byrja bráðum í skólanum á ný eftir sumarfrí. Þau fá þó ekki fyrsta skammtinn af bóluefni fyrr en eftir skólasetningu. Þá munu líða nokkrar vikur til viðbótar uns þau teljast fullbólusett.

„Allt á útopnu“

„Það er allt á útopnu, ef við hefðum ótakmarkaðan mannafla þá gætum við gert þetta mjög hratt en það er bara ekki þannig,“ segir Þórólfur. 

Hann bendir á að það þurfi líka að bólusetja fólk sem var ekki bólusett í fyrstu umferð og gefa seinni sprautu þeim sem höfðu aðeins fengið eina. Á sama tíma er verið að taka gríðarlegan fjölda sýna á heilsugæslunni. „Allt tekur þetta mannafla og tíma og margt sem er takmarkandi í þessu en það hefði vissulega verið gott að vera búin að klára þetta.“

Þrátt fyrir þetta verða ekki strangari aðgerðir í skólum fyrstu vikurnar en almennt eru í samfélaginu. Þórólfur segir að það þurfi þó líklega að vinna sérstakar reglur og útfærslur fyrir skólana í samvinnu við skólasamfélagið. 

Börn verða ekki fullbólusett fyrr en mörgum vikum eftir að …
Börn verða ekki fullbólusett fyrr en mörgum vikum eftir að skólahald hefst. mbl.is/Hari

Hraðpróf koma ekki í stað sóttkvíar

Það hefur skapast umræða um hraðgreiningarpróf og vonir verið bundnar við að þau komi til með að gagnast í skólum. Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands, hefur talað um að hraðpróf gætu komið í stað sóttkvíar svo heilu bekkirnir þurfi ekki að sæta sóttkví ef einn smitast. 

Þórólfur segir hraðgreiningarpróf ekki koma í staðinn fyrir sóttkví, það verði að teljast óskhyggja. Hraðprófin geti þó hjálpað til við ákvörðun um að stytta sóttkví eða breyta henni. 

„Sóttkví verður enn að vera kjarninn í því sem við gerum til að koma í veg fyrir útbreiðslu smits. Getum ekki haldið að hraðgreiningarpróf komi í staðinn.“

Unnið er að leiðbeiningum um notkun á hraðprófum í fyrirtækjum og skólum, að sögn Þórólfs. Það þurfi að koma þeim í samhangandi farveg. Ekki er kominn tímarammi á hvenær þeirri vinnu verður lokið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert