Lokaskimun er að hefjast í Reykjadal fyrir þá gesti og starfsmenn sem voru skikkaðir í sóttkví eftir að smit kom upp hjá einum starfsmanni sumarbúðanna fyrr í vikunni.
Sumarbúðirnar í Reykjadal taka á móti börnum og ungmennum sem glíma við fötlun og er því um að ræða viðkvæman hóp. Um áttatíu manns fóru í sóttkví, þar af fimmtíu starfsmenn og tuttugu og sjö gestir.
Margrét Vala Marteinsdóttir, forstöðukona Reykjadals segir að ekki hafi greinst nein smit enn sem komið er. Það verður því ekki hægt að segja fyllilega til um það fyrr en í kvöld þegar niðurstöður úr lokasýnatöku seinni hópsins berast.
Starfsfólk heilsugæslunnar mætti upp í Reykjdal vegna skimunarinnar til þess að hópurinn þurfi ekki að fara niður á Suðurlandsbraut og bíða þar í röð eftir sýnatöku. Margrét er þakklát fyrir þá góðu þjónustu sem fengist hefur frá rakningarteyminu, heilsugæslunni og Covid-göngudeild Landspítalans.