Marta Kristín Lárusdóttir, dósent hjá Háskólanum í Reykjavík, segist sjá margt jákvætt við kórónuveirutímabilið. Aukin samvera með fjölskyldu, minni ferðalög og hægara líf hentar henni vel.
Kórónuveiran hefur sannarlega haft mikil áhrif á kennslu og hafa bæði kennarar og nemendur þurft að aðlagast breyttum aðstæðum.
„Frá því ég byrjaði að kenna árið 2000 höfum við alltaf verið með fólk í fjarnámi. Þannig að fyrirlestrarnir mínir hafa alltaf verið teknir upp og þeir settir á netið stuttu síðar. Það hefur nýst bæði fólki í staðnámi og fjarnámi,“ segir Marta og segir að þegar Covid skall á hafi lítið verið um staðnám og því hafi reynsla síðustu áratugina af fjarnámi komið sér vel.
„Síðastliðið haust barðist ég fyrir því að nemendur fengju að koma aðeins í skólann. Hinir kennararnir vildu margir hafa námið alveg í fjarnámi en ég vildi að nemendur myndu fá að sjá aðeins framan í hvort annað. Ég lagði því á mig að kenna sama fyrirlesturinn fjórum sinnum vegna takmarkana sem voru við lýði,“ segir hún og segir marga nemendur hafa verið þakkláta fyrir það.
„En mest var kennt í fjarnámi og það gekk vel því þetta var ekki glænýtt fyrir okkur.“
Marta á þrjú börn og búa tvö þeirra yngri heima, Guðrún Ýr og Valur, átján og 21 árs. Elsti sonurinn Lárus hefur búið í Lyon í Frakklandi í nokkur ár þar sem hann útskrifaðist sem kokkur vorið 2020. Þar kynntist hann kærustu sinni Marie, sem einnig er kokkur og útskrifaðist frá sama skóla á sama tíma.
„Þau ákváðu um haustið 2019 að ráða sig tímabundið á skíðahótel í frönsku ölpunum. Svo lokaði auðvitað þetta skíðahótel um miðjan mars 2020, aðeins fyrr en gert var ráð fyrir, og þá var enga vinnu að fá. Þau voru spennt fyrir að fara að nota sína menntun en það var allt lokað í Frakklandi. Þau fluttu þá í gamalt fjölskylduhús í fjölskyldu Marie um hríð en ákváðu svo að koma til Íslands í júní í fyrra og sjá til hvað myndi gerast. Lárus fékk strax vinnu á Kaffi Vest og Marie um haustið á Matbar. Þannig að þau bjuggu hér hjá okkur í kjallaranum og þegar lokanir voru á veitingastöðum var ekki mikil vinna hjá þeim, en þau þurftu að fá útrás fyrir að elda. Þannig að þau eldaðu bara hér! Það var dásamlegt að hafa tvo franskmenntaða kokka á heimilinu,“ segir hún og brosir breitt. Í heilt ár bjó því unga parið í kjallaranum en þau eru nú nýflutt út. Marta dásamar þennan tíma og segir yndislegt að hafa fengið að kynnast tengdadóttirinni svona vel. Ekki skemmdi fyrir að fá dýrindismat nánast á hverju kvöldi.
Þegar þú horfir til baka, hvað er jákvæðast við kórónuveirutímabilið?
„Ég horfi til þessa tímabils með þakklæti og jákvæðni. Ég er þakklát fyrir að enginn náin mér veiktist, en ég hafði mestar áhyggjur af aldraðri móður minni,“ segir Marta.
„Mér fannst ég hafa haft þörf fyrir að hægja aðeins á. Þetta er í raun spennandi alheimstilraun, að láta okkur njóta aðeins betur að vera heima hjá okkur. Það er fín hvíld að þurfa ekki að ferðast. Stundum fannst mér líka aðeins of mikill hraði í lífinu og gott að takturinn er nú hægari en áður. Nú nýt ég betur litlu hlutina og hversdagsleikans. Ég naut mikið áhugamálanna, bæði hestamennskunnar og að fara í fjallgöngur, og þessi áhugamál gat ég stundað ótrauð, þrátt fyrir takmarkanir. Ég fór líka að kunna betur að meta atvinnuöryggið. Ég hef aldrei verið eins þakklát fyrir það eins og nú að vera í starfi sem mér finnst ótrúlega spennandi og að það sé nokkuð öruggt að ég fái að halda því. Þannig að eitt af því sem ég hef fengið út úr þessu tímabili er þakklæti. Bæði vegna vinnunnar en ekki síður vegna sambands míns við krakkana mína og tengdadóttur. Við vorum oftast sex saman hér heima, tengslin okkar efldust og mér fannst stundum eins og við værum öll sex saman í heimsreisu.“
Nánar er rætt við Mörtu Kristínu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.