Ákveðið hefur verið að hætta við áfangann "Runk og réttindi – kynfræðslan sem vantaði fyrir 8.-10. bekk" í Giljaskóla á Akureyri. Þessu greinir Heiðar Ríkharðsson, kennarinn sem ætlaði að vera með áfangann, á twittersíðu sinni.
„Hugmyndin var bara kynfræðsla sem er ekki eins og skólakynfræðsla og megináherslan mörk og að þekkja sjálfan sig. Það er svona rauði þráðurinn,“ segir Heiðar í samtali við mbl.is.
„Krakkarnir fengu að stjórna hvað við töluðum um hverju sinni og fóru úr því að tala um hvernig er að vera kærasti eða kærasta í eitthvað mjög gróft kynlífstengt,“ segir hann um áfangann.
Áfanginn var nýr í fyrra og hét þá „Fávitar“ líkt og samfélagsverkefni Sólborgar Guðbrandsdóttur gegn stafrænu og annars konar kynferðisofbeldi. Nafninu hafi aftur á móti verið breytt fyrir annað árið þar sem Sólborg er farin í hlé og í samræmi við þá stefnu sem nemendur skólans völdu að áfanginn tæki.
„Ég ætlaði bara að keyra það módel í raun áfram. Það gekk vel fyrir utan að það féll ótrúlega mikið niður í fyrra út af Covid.“ Áfanginn var fyrir unglingastig á öllu Akureyri og því féllu margir tímar niður vegna fjöldatakmarkana.
„Í rauninni gekk allt vel í samskipti við bæði minn skóla og fræðsluskrifstofuna hérna á Akureyri. Á fyrri önninni var mjög fjölmennt í tímana,“ segir hann en nemendum fækkaði um helming á seinni önninni og eftir að hann breytti nafninu var of lítil aðsókn til að halda áfanganum áfram. Þar hafi bæði nafnbreytingin og önnur „praktísk“ atriði spilað inn.
„Þau þurftu að koma sér sjálf upp í Giljaskóla klukkan tvö á mánudögum. Voru lengi að koma sér á milli,“ segir hann og bætir við að strætóferðir hafi verið erfiðar hvað það varðar.
Varðandi framhaldið segir hann að áfanginn sé bara dropi í hafið varðandi bætta kynfræðslu. „Það sem maður vill núna er að þetta komi í skólana til krakkanna. Öðruvísi nálgun og það sé gefinn meiri tími. Af því það komast mest bara 20 í hverja valgrein.“