Þurfi að ræða stöðu Bjarna í forystu

Páll Magnússon, fráfarandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Páll Magnússon, fráfarandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Páll Magnússon, fráfarandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að ræða þurfi stöðu Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins, í viðtali við Fréttablaðið í dag.

„Sjálfstæðismenn hljóta að ræða hvort það sé fullreynt að ná árangri með núverandi formanni og forystu,“ segir Páll þar.

Páll hefur verið gagnrýninn á stöðu flokksins og fylgismissi í aðdraganda brotthvarfs síns af þingi, meðal annars í aðsendri grein í Morgunblaðinu sem birtist í júlí þar sem hann spurði hvort flokkurinn væri í sjálfheldu.

Ótti við að missa fylgi til Viðreisnar og Miðflokks

Bæði í viðtalinu og aðsendu greininni gagnrýnir Páll stjórn flokksins og segir hana hvorki þora að vera frjálslynd né íhaldssöm, af ótta við að missa fólk yfir til Viðreisnar og Miðflokksins.

Í Sjálfstæðisflokknum hefur skapast andrými fyrir þá skoðun að þú sért að bregðast flokknum með því að gagnrýna forystuna. Ég vil hins vegar meina að þú sért að bregðast með því að gera það ekki þegar þörf er á, eins og nú er,“ segir Páll í viðtalinu. 

Páll mun nú stýra þáttunum Pólitík með Páli Magnússyni á sjónvarpsstöðinni Hringbraut fram að kosningum í lok september. 

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert