Allir vistmenn á Vernd í farsóttarhúsi

Farsóttarhús. Fosshótel Reykjavík var áður sóttkvíarhótel en varð farsóttarhús eftir …
Farsóttarhús. Fosshótel Reykjavík var áður sóttkvíarhótel en varð farsóttarhús eftir reglugerðarbreytingu heilbrigðisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Smit kom upp á áfangaheimilinu Vernd á laugardaginn. Í kjölfarið greindist annað smit og allir starfsmenn og vistmenn þurftu að fara í sóttkví. 

„Þá var bara tekin ákvörðun í samráði við sóttvarnayfirvöld að tæma Vernd og allir vistmennirnir fengu inni í farsóttarhúsi á meðan starfsemin liggur niðri,“ segir Þráinn Bj. Farestveit, framkvæmdastjóri Verndar. 

Er þetta undantekning frá reglugerð sem var breytt nýlega af heilbrigðisráðherra á þann veg að einungis einangrunargestir fengju að dvelja í farsóttarhúsum, ekki þeir sem sæta sóttkví. 

Vegna smitanna var aftur á móti ekki hægt að halda starfseminni gangandi og því það eina í stöðunni að vistmennirnir fengju að dvelja í farsóttarhúsinu þangað til hún getur hafist að nýju en Þráinn býst við því að það verði eftir um það bil viku. 

Í fyrstu skimun komu ekki fram nein fleiri smit en þessi tvö. Aftur verður skimað síðar í vikunni. 

Vernd átti að taka á móti nýjum vistmönnum í vikunni en ljóst er að það frestast líka.

„Þetta er sérstakt en miðað við þá stöðu sem er í samfélaginu var viðbúið að þetta gæti gerst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert