Fimmfaldaði gjörgæsluna á Karólínska-sjúkrahúsinu

Björn segir m.a. að fullreynd sé sú nálgun að fjármagna …
Björn segir m.a. að fullreynd sé sú nálgun að fjármagna sjúkrahúsrekstur með föstum fjárframlögum.

Rétt í þann mund sem kórónuveirufaraldurinn skall á Svíum af fullum þunga í fyrra tóku Björn Zoëga og samstarfsmenn hans á Karólínska-háskólasjúkrahúsinu í Stokkhólmi á honum stóra sínum og fimmfölduðu fjölda gjörgæslurýma úr 38 í 180. Á elleftu stundu tókst honum að panta 50 nýjar öndunarvélar frá sænsku fyrirtæki, rétt í þann mund sem pantanir dreif að, úr öllum heimshornum.

Faraldurinn skall á, rúmu hálfu ári eftir að hann tók við spítalanum en þá var spítalinn í miklum fjárhagskröggum. Til þess að sporna við botnlausum hallarekstri sagði Björn upp 550 skrifstofumönnum og u.þ.b. 400 læknum og sjúkraliðum. Frá því að gripið var til þeirra aðgerða hefur sjúkrarúmum á spítalanum verið fjölgað um tæpan fjórðung og starfsánægja fólks er meiri. Starfsmannavelta á spítalanum hefur aldrei verið minni.

Björn er gestur í Dagmálum, streymisþætti sem aðgengilegur er áskrifendum Morgunblaðsins á mbl.is. Þar segir hann m.a. að fullreynd sé sú nálgun að fjármagna sjúkrahúsrekstur með föstum fjárframlögum. Tengja verði afköst og gæði þjónustunnar við það sem ríkissjóður reiðir af hendi. Við slíkar aðstæður hafi stofnanir tilhneigingu til þess að hugsa hlutina upp á nýtt, hagræða og einfalda rekstur í þágu sjúklinga og starfsfólks.

Alvarlegar afleiðingar

Hann segir enn ekki ljóst hver dómurinn yfir aðgerðum sænskra yfirvalda vegna kórónuveirunnar verði þegar allt verður gert upp. Dánartíðni þar í landi hafi ekki reynst meiri en í skæðum inflúensuárum. Þó séu nú að koma fram alvarlegar afleiðingar af faraldrinum. Mikið sé um nýgengi krabbameina sem séu í stórauknum mæli langt gengin. Það skýrist sennilega af því að skimunum var hætt meðan faraldurinn stóð sem hæst og að fólk hefur dregið það að leita sér lækninga vegna ástandsins.

Viðtalið við Björn er opið öllum áskrifendum Morgunblaðsins. Það er aðgengilegt hér.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert