„Við vorum í raun að draga það fram að á þessum tímapunkti þá væri svigrúmið til þess að taka við óvæntri uppákomu takmarkað, eða lítið sem ekkert,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítala, í samtali við mbl.is um minnisblað sem hann og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, skiluðu til heilbrigðisráðherra í gær.
„Í minnisblaðinu tíunduðum við hvað hafi verið að gerast á spítalanum í þessari bylgju, hvað spítalinn hefur gert, ýmist upp á sitt einsdæmi eða með aðstoð utanaðkomandi, og hvað staðan væri í raun og veru þröng á spítalanum á þeim tímapunkti,“ segir Már og bætir við að spítalinn hafi verið við þolmörk á gjörgæslunni.
Samkvæmt nýju spálíkani um stöðuna á Landspítalanum næstu tvær vikurnar má áætla að innlögnum muni fækka á spítalanum en óbreytt staða verði á fjölda sjúklinga á gjörgæslu.
„Á gjörgæslu er þar sem skórinn kreppir. Ef allt er óbreytt eins og ástandið er í dag þá munu önnur vandamál safnast upp,“ segir Már og nefnir skimanir, vandamál með skimanir á leghálssýnum sem geti orðið til þess að meðferðir við krabbameinum muni aukast.
„Í venjulegu árferði ættum við að geta glímt við það en það gæti orðið snúið eins og staðan er núna af því að við erum búin að hliðra starfsfólkinu sem var inni á skurðstofunum á gjörgæslu og erum ekki að halda uppi nema allra brýnustu aðgerðum.“
Þannig að ástandið á gjörgæslu mun ekki viðgangast í lengri tíma?
„Það viðgengst eins lengi og það þarf. Það er hins vegar ákvörðun yfirvalda hvað þau vilja gera, fallast þau á það, að þetta sé með þessum hætti í lengri tíma?“
„Í lok minnisblaðsins lögðum við áherslu á að ráðherra og þeir sem sjá um skipulag heilbrigðismála myndu íhuga þetta og gera þær ráðstafanir sem þau teldu viðeigandi til þess að leita allra leiða í að hjálpa okkur og draga úr umfangi smita í samfélaginu,“ segir Már.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sagt að hann bíði með að leggja til hertari aðgerðir þar til ótvírætt neyðarkall berist frá Landspítala. Spurður hvort að minnisblaðið megi túlka sem það neyðarkall segir Már svo ekki endilega vera.
„Þetta er ákveðin stöðuskýrsla. Þetta er lýsing á ástandi og lýsing á þeim skorti á sveigjanleika sem við erum komin í út af ástandinu. Fólk getur síðan túlkað þetta hvernig sem það vill. Við höfum ekki farið í að senda frá okkur svokallað neyðarkall en við höfum verið í mjög nánu sambandi við ráðuneytið.“
Már nefnir að í viðbragsáætlun spítalans sé gert ráð fyrir þremur stigum, en hann er nú á öðru stigi, hættustigi. Ef spítalinn færist yfir á neyðarstig þá er staðan orðin sú að spítalinn geti ekki sinnt hlutverki sínu án utanaðkomandi hjálpar.
Nú þegar hefur Landspítali þurft að leita aðstoðar sjúkrahússins á Akureyri og heilbrigðisstofnana á Suðurlandi og Suðurnesjum. „Vissulega höfum við fengið utanaðkomandi hjálp en eins og forstjóri hefur oft bent á, þá erum við í rauninni alltaf í einhverri miðlun við aðrar stofnanir. Auðvitað er staðan núna þó miklu ýktari en í venjulegu árferði.“
Már segir að þó að spálíkanið geri ráð fyrir að nýjum smitum muni fækka hægt og bítandi beri þess að geta að skólarnir séu að hefjast. Þá er ekki eins mikil sókn í örvunarskammta og búist var við.
Hann nefnir í því samhengi gögn sem berist frá Ísrael þar sem kemur fram að þeir sem voru bólusettir í febrúar séu að smitast nú. Því séu Ísraelsmenn að skoða að gefa þriðja skammtinn. Már segist því hvetja alla sem eiga möguleika til að þiggja örvunarskammt.
„Það hafa miklu fleiri smitast í þessari bylgju en nokkurri annarri en enga síður erum við að sjá lægra hlutfall innlagna. Það er því ekki nokkur vafi í mínum huga að bólusetningin hefur hjálpað okkur alveg gríðarlega mikið,“ segir Már.