Veiran nam land í Grímsey í fyrsta sinn

Það var bara tímaspursmál hvenær veiran kæmist til Grímseyjar, segir …
Það var bara tímaspursmál hvenær veiran kæmist til Grímseyjar, segir Karen. Ljósmynd/Friðþjófur Helgason

Fyrstu kórónuveirusmitin greindust í Grímsey í síðustu viku. Þau voru tvö og fóru allir íbúar eyjunnar í sóttkví vegna smitanna. Á sunnudag voru allir íbúar, sem eru á milli 40 og 50 talsins sem stendur, skimaðir og greindust þrjú smit til viðbótar. Smitin eru þó öll bundin við tvö heimili svo þau virðast ekki hafa náð að dreifa mikið úr sér. 

Karen Nótt Halldórsdóttir hjá hverfisráði Grímseyjar staðfestir þetta í samtali við mbl.is en RÚV greindi fyrst frá. 

Læknir heimsækir Grímsey á um þriggja vikna fresti. Hann kom með skimunartól á sama tíma og örvunarskammta fyrir þá sem höfðu fengið bóluefni Janssen, í síðustu viku. Þá voru tveir með einkenni Covid-19. Þeir fóru í skimun og reyndust smitaðir. Á sunnudag fór svo víðtækari skimun fram. 

„Ég held að við höfum öll farið hafi farið í skimun á sunnudaginn,“ segir Karen í samtali við mbl.is. Þrjú smit greindust þá en öll önnur sýni voru neikvæð. „Við erum bólusett svo vonandi hefur það hjálpað til.“

Eins og skrýtinn draumur

Það hefur væntanlega skapast sérstök stemning þegar allir íbúar eyjunnar voru í sóttkví? 

„Já. Við töluðum einmitt um það í gær að okkur leið svolítið eins og okkur hefði bara dreymt þetta. Eyjan var í raun alveg lömuð þessa daga. Eftir að við fórum í sóttkví var veitingastaðnum og búðinni lokað,“ segir Karen. 

„Þetta eru búnir að vera mjög skrýtnir dagar en eftir að við fengum skilaboðin í gær, hvert á fætur öðru, voru búðin og veitingastaðurinn opnuð, auðvitað með spritti, grímunotkun og öllum þeim viðbúnaði.“

Tímaspursmál

Aðspurð segir Karen það auðvitað magnað að um sé að ræða fyrstu kórónuveirusmitin í Grímsey. 

„Við erum búin að vera í okkar eigin búbblu, en það komu mun fleiri ferðamenn til Grímseyjar í sumar en sumarið áður. Þetta var bara eins og fyrir Covid,“ segir Karen.

„En þetta var svo sem bara tímaspursmál. Þetta er bara það sem er að gerast í öllum heiminum. Við erum búin að vera ótrúlega heppin hingað til.“

Karen segir svolítið snúið að bregðast við því þegar Grímseyingar þurfa að fara í skimun.

„Þetta er svolítið erfið staða sem við erum í á eyju úti í Atlantshafi. Það er vandkvæðum bundið að flytja okkur í land í skimun því þá þurfum við að fara í almenningssamgöngur. Það er sennilega minna vesen að koma með græjur til þess að skima fólk en flytja okkur í land.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert