Þjóðaröryggisráð fundar um kortafyrirtæki

Þjóðaröryggisráð hefur fundað vegna erlends eignarhalds greiðslukortafyrirtækja.
Þjóðaröryggisráð hefur fundað vegna erlends eignarhalds greiðslukortafyrirtækja. AFP

„Ég get staðfest að þjóðaröryggisráði barst bréf frá Seðlabanka Íslands haustið 2019 þar sem viðraðar voru áhyggjur af eignarhaldi og yfirráðum á þeim greiðslumiðlunarkerfum sem notast er við hér á landi,“ segir Katrín Jakobsdóttir, sem situr í forsæti þjóðaröryggisráðs.

Hún segir að ráðið hafi tekið ábendinguna alvarlega og upplýst fjármála- og efnahagsráðuneytið í kjölfarið og haldið samtali við Seðlabankann áfram. Þannig hafi þjóðaröryggisráð fundað fjórum sinnum um stöðuna og til hvaða aðgerða sé rétt að grípa til þess að stemma stigu við þeirri ógn sem þessi staða geti leitt af sér.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Unnur Karen

Verkefnið hjá Seðlabankanum

„Verkefnið er hjá Seðlabankanum og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef miðar vel áfram,“ segir Katrín.

Gunnar Jakobsson er varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika og hefur haft málefni greiðslumiðlunarkerfa fjármálakerfisins á sinni könnu frá því hann tók við embætti í byrjun árs 2020.

„Það er mjög mikilvægt að gera greinarmun á grunninnviðum millibankakerfisins sem tryggir allar millifærslur af innlánsreikningum milli lánastofnana og svo greiðslukortakerfanna sem miðla fjármagni frá kaupendum til seljenda að vöru og þjónustu, hvort tveggja er grunnur að greiðslumiðlun á Íslandi,“ segir Gunnar til útskýringar á þeim áhyggjum sem bankinn hefur og lúta að síðarnefndu kerfunum.

Á sjálfur millibankakerfin

Millibankakerfin í eigu Seðlabanka Íslands hafa nýlega verið uppfærð og er rekstur og uppgjör þeirra í höndum bankans.

„Uppgjör á greiðslukortaviðskiptunum fer fram í gegnum Visa og Mastercard sem eru alfarið í erlendri eigu. Ef þessi fyrirtæki gætu ekki eða tækju ákvörðun um að eiga ekki viðskipti við Ísland myndi það valda tímabundnum erfiðleikum innanlands. Það væri eftir sem áður ekkert mál að greiða reikninga og millifæra fjármuni í heimabönkum, svo dæmi sé tekið, en fólk gæti þurft að leggja inn á bankareikninga þeirra verslana sem það ætti í viðskiptum við í þessu ástandi eða nota seðla,“ segir Gunnar. Gunnar ítrekar að ekki sé komin upp nein krísa vegna þessarar þróunar en eins og greint hefur verið frá í Morgunblaðinu voru innviðir debetkorta-kerfisins í innlendri eigu árið 2008 þegar til ágreinings kom milli Seðlabankans og erlendu kortarisanna. Samningsstaða Íslendinga í þeim hildarleik hefði verið allt önnur og lakari hefðu debetkortainnviðirnir ekki verið undir innlendu forræði.

Gunnar segir að Seðlabankinn vinni nú að uppbyggingu innlendrar og óháðrar smágreiðslulausnar sem hægt verði að tengja við millibankakerfin eða halda úti til hliðar við þau kerfi sem greiðslumiðlun innanlands byggir á í dag.

Kerfislega mikilvægir með

„Þetta er verkefni sem við höfum unnið í samstarfi við Reiknistofu bankanna og þegar verkefnið verður komið lengra munum við einnig vinna þetta með kerfislega mikilvægum bönkum hér innanlands.“

Aðspurður segir Gunnar að nokkuð sé í að lausnin verði tilbúin. Nú sé verið að greina hvaða leið sé hentugast að fara.

„Þetta hefur tafist nokkuð vegna kórónuveirufaraldursins en við gerum ráð fyrir að ákvörðun um hvaða leið verður farin liggi fyrir í kringum áramótin. Þá verða næstu skref stigin,“ segir Gunnar.

Spurður út í hvort finna þurfi upp hjólið í þessum efnum bendir Gunnar á að ýmislegt í núverandi kerfum gangi nærri því að geta uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru til kerfis af þessu tagi. Millibankakerfið og heimabankarnir séu þar lykilatriði en vandinn sé að tengja „síðasta metrann“ inn til söluaðilanna. Núverandi posakerfi bjóði ekki upp á slíka tengingu. Svipaðar lausnir séu til staðar af enhverju tagi eða í þróun á öðrum Norðurlöndum en áskoranirnar séu svipaðar á flestum mörkuðum.

Kostnaðurinn dreifist á marga

Aðspurður segir Gunnar að Seðlabankinn hafi borið kostnaðinn af vinnunni við uppbyggingu nýs óháðs kerfis og að það sé eðlilegt þar sem málið sé tengt þjóðaröryggi. Kostnaðurinn sé hins vegar óverulegur í samhengi hlutanna.

„Þegar innleiðingin hefst má hins vegar gera ráð fyrir mun meiri kostnaði og hann mun þá falla eftir atvikum á Reiknistofu bankanna og bankana sjálfa og á endanum viðskiptavini þeirra“. Það er hins vegar ekki neikvætt í sjálfu sér enda munu almenningur og fyrirtæki, notendur kerfisins, njóta góðs af því í framhaldinu af lægri kostnaði og auknu öryggi og hagræði í greiðslumiðlun.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert