„Ég tel að við þurfum að breyta um takt og gæta þess að falla ekki í sama farið og áður en hér varð meginþorri þjóðarinnar bólusettur. Hærra bólusetningahlutfall er hér en önnur lönd geta státað sig af. Fjöldi smita skiptir ekki lengur öllu eins og áður. Við þurfum að einblína að komast i eðlilegt líf.“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra um stöðu sóttvarna í samtali við mbl.is.
Hún segir að ekki verði við unað að búa við íþyngjandi takmarkanir til lengri tíma án skýrra svara um hvert sé markmiðið og hvernig við komumst þangað. Ekki séu lagaheimildir til staðar til að taka sóttvarnaráðstafanir til framtíðar.
Þá segist Áslaug vilja líta til landa sem hætt eru að setja börn og fullbólusett fólk í sóttkví.
„Við þurfum að líta til annarra lausna eins og sjálfsprófa. Stuðla að auknu frelsi með ábyrgð – sérstaklega svo að skólarnir sem er algjört forgangsatriði gangi eðlilega.“
Áslaug segir unga fólkið okkar vera komið að þolmörkum og það sama gilda um foreldra og kennara. Framhaldsskólakrakkar hafi einnig sérstaklega lagt mikið á sig og meta þurfi aðra þætti en sóttvarnir þegar kemur að 4 önninni þeirra í einhverjum takmörkunum.
„Það er algjört forgangsatriði að skólahald verði með sem eðlilegustum hætti, það er ekki þannig þegar hundruð barna fara í sóttkví vegna nokkurra smita og foreldrar með.
Hér þarf að breyta um takt, nýta sjálfspróf og beina fólki að gæta sín gagnvart viðkvæmum hópum hafi það verið útsett. Þá er hægt að nýta sjálfspróf eða hraðpróf áður en þú heimsækir fólk, sækir tónleika eða skemmtanahald og fjölmenna viðburði og einnig ef þú sért útsettur eftir smit.
Þetta eru atriði sem við verðum að skoða á sama tíma og við lítum til annarra þátta - því við getum ekki gripið til meira íþyngjandi aðgerða ef það eru tækifæri til staðar til að nýta aðrar lausnir. Sérstaklega með vel bólusetta þjóð,“ segir Áslaug Arna.
„Okkur ber einfaldlega sú skylda til að gera allt sem í okkar valdi stendur til að takmarkanirnar séu minna íþyngjandi, einfalda líf fólks, nýta tæknina og tækifærin sem eru - en grípa ekki bara til sömu íþyngjandi ráðstafana af því að við höfum gert það áður.
Við getum ekki viðhaldið ströngum takmörkunum í öllu samfélaginu nema til að vernda heilsu og öryggi fólks. Það þarf að vera rík ástæða til að setja á og viðhalda ströngum takmörkunum. Því lengur sem ástandið varir því meiri krafa er að líta til meðalhófs.“
Hvernig sérð þú fyrir þér fyrirkomulag við eftirlit á landamærum Íslands?
„Það kemur ekki til greina að takmarka fjölda þeirra sem koma til landsins vegna skimunargetu ríkisins. Kerfið er til fyrir fólkið en ekki fólkið fyrir kerfið. Ef við ætlum að viðhalda ströngum takmörkunum á landamærunum er okkar skylda að ráða við þann fjölda sem hingað kemur.“