Hamfarahlýnun stærsta ógn barna og ungmenna

UNICEF

Unicef gaf í dag út skýrslu um loftslagsmál þar sem kynnt var í fyrsta sinn sérstakur barnamiðaður loftslagsáhættustuðull.

Þar kemur fram að nánast hvert einasta barn í heiminum verður nú fyrir að minnsta kosti einu áfalli af völdum hamfarahlýnunar. 1 milljarður barna í 33 ríkjum í efstu sætum listans eru í mjög mikilli hættu. Ísland er í neðsta sæti listans þar sem áhættan er talin lítil og almennt gott aðgengi að nauðsynlegri þjónustu.

Börn beri mestan skaða af hækkandi hitastigi

Í skýrslu Unicef kemur fram að hamfarahlýnun grafi undan réttindum barna á hverjum einasta degi. Nánast hvert einasta barn í heiminum verður nú fyrir að minnsta kosti einu áfalli af völdum hamfarahlýnunar, loftmengun, hitabylgjur, vatnsskortur, gróðureldar, flóð og ofsaveður setja börn um allan heim í mikla hættu. 

UNICEF

Um það bil 1 milljarður barna, næstum helmingur allra barna í heiminum, er mjög berskjaldaður vegna hamfarahlýnunar sem ógnar heilsu þeirra, menntun og öryggi.

Í efstu sætum listans eru 33 lönd sem flokkast undir „mjög mikla hættu“ og búa þar um 1 milljarður barna. Þetta eru til að mynda börn í Miðafríkulýðveldinu, Tsjad, Afganistan, Bangladess, Jemen, Haítí og Nígeríu. Þessi börn standa frammi fyrir banvænni blöndu af margvíslegum áföllum og miklu varnarleysi vegna skorts á hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu, heilsugæslu og menntun, að því er segir í skýrslunni. 

Niðurstöður skýrslunnar endurspegla fjölda þeirra barna sem eru í hættu í dag en sú tala mun að öllum líkindum hækka eftir því sem áhrif hamfarahlýnunar verða meiri. Ísland er í neðsta sæti listans þar sem áhættan er talin lítil og almennt gott aðgengi að nauðsynlegri þjónustu.

UNICEF

Senda ákall til ríkisstjórna heimsins

Í þrjú ár hafa börn og ungmenni um allan heim staðið upp og krafist aðgerða með vikulegum loftslagsverkföllum með samtökum ungra umhverfissinna sem kalla sig Fridays for Future, sprottin upp frá loftslagsverkfalli Gretu Thunberg frá Svíþjóð.

Í tilkynningu segir að með skýrslunni styður Unicef ákall Fridays for Future um aðgerðir og hvetur stjórnvöld og fyrirtæki að hlusta á börn, forgangsraða aðgerðum sem vernda þau gegn áföllum og draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Með skýrslunni sendir Unicef einnig ákall til stjórnvalda heimsins að auka fjárfestingu til loftslagsaðgerða, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, veita börnum fræðslu um loftslagsmál og tryggja sjálfbæra og jafna uppbyggingu eftir Covid-19 svo að hæfni komandi kynslóða til að takast á við og bregðast við hamfarahlýnun verði ekki skert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert