Ríkisstjórn Íslands fundaði meðal annars um breytta framtíðarsýn vegna heimsfaraldurs Covid-19 á reglulegum ríkisstjórnarfundi sínum í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að á dagskrá sé að nýtast við hraðpróf í auknum mæli og þrengja hóp þeirra sem þurfa að fara í sóttkví þegar upp kemur smit.
Hún segir unnið sé að útfærslu við slíkt og stefnt sé að því að tillögur um breyttar reglur um sóttkví, þannig að náið samneyti verði betur greint, verði tilbúnar þegar núverandi reglugerð um sóttvarnaaðgerðir rennur út í lok næstu viku.
Til að mynda segir Katrín til umræðu að fjölskylda lendi ekki sjálfkrafa í sóttkví ef barn greinist með Covid-19 á heimili heldur muni fjölskylda viðhafa smitgát. Það þýðir að fólk geti farið út fyrir veggi heimilis, í verslanir og sótt vinnu, en haldi sig frá fjölmennum atburðum og heimsæki ekki hjúkrunarheimili.
Katrín segir að aukin áhersla verði lögð á smitrakningu og smitrakningarteyminu verði tryggður liðsauki. „Vinna þeirra hefur verið til fyrirmyndar hingað til en við munum bæta í. Við verðum að muna að sóttkví er íþyngjandi en hefur verið að virka vel. Við munum leggja áherslu á að tryggja gangverk samfélagsins og lágmarka áfram veikindi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.