Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að þeir sem stingi upp á því að sóttkví verði afnumin, hvort heldur sem er fyrir fullbólusetta eða óbólusetta, skilji ef til vill ekki þann tilgang sem sóttkví þjónar.
Hann segir að sóttkví, einangrun og smitrakning séu hornsteinn sóttvarna í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. Afnám sóttkvíar segir Þórólfur að jafngildi því að leyfa faraldrinum að ganga lausum.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur talað fyrir því að sóttkví bólusettra og barna verði afnumin og segir hún að það yrði að fordæmi nágrannaþjóða okkar.
„Sóttkví er beitt til dæmis á öllum hinum Norðurlöndunum. Það er mikill misskilningur ef menn halda því fram að það sé ekki,“ segir Þórólfur við mbl.is.
„Útfærslan er þó mismunandi, sérstaklega með tilliti til barna í skólum. Öll börn fara til dæmis í sóttkví á Norðurlöndunum sem eru útsett heima, þá fyrir utan skólakerfið og ef útsetningin er mikil. Þannig að það er mikil einföldun að halda það að við getum bara hætt við sóttkvína, þá erum við raunverulega bara að segja að við ætlum að hætta að eiga við þennan faraldur og láta hann bara ganga lausan,“ bætir hann við.
Það segir Þórólfur að myndi fljótt skila sér í fjölgun tilfella með tilheyrandi vandamálum fyrir Landspítalann. Þórólfur minnir á að öllum aðgerðum innanlands var hætt, að undanskilinni smitrakningu mánaðamótin júní/júlí.
„Það tók faraldurinn ekki nema tvær vikur að rjúka upp,“ segir hann.
„Hraðar en nokkru sinni fyrr.“
Þórólfur segir því að það verði að skoða reynslu frá því fyrr í faraldrinum, hvað gerst hafi þegar ráðist hefur verið í viðamiklar afléttingar.
Þó segir hann einnig að í ljósi þeirrar sömu reynslu sé margt sem sé hægt að útfæra öðruvísi en áður. Nefnir hann í því sambandi að nýjar reglur hafi þegar tekið gildi um sóttkví vegna smita á vinnustöðum og í skólum. Svo sé væntanleg á morgun ný reglugerð sem kveður á um sóttkví á heimilum.
Eins og fyrr segir er Þórólfur þó þeirrar skoðunar að ekki megi afnema sóttkví, það muni hafa alvarlegar afleiðingar á meðan faraldurinn geti enn geisað hér innanlands, eins og raun ber vitni um.
„Ég held við getum ekki lagt niður sóttkví og þeir sem eru að stinga upp á því eru ekki alveg að sjá út á hvað þetta gengur.“