Kinnbeinsbrotinn og með djúpan skurð á höfði

Leigubílstjórinn segist óákveðinn um hvort hann haldi áfram störfum.
Leigubílstjórinn segist óákveðinn um hvort hann haldi áfram störfum. mbl.is/​Hari

Leigubílstjórinn sem þrír karlmenn réðust á síðastliðið föstudagskvöld fyrir utan Minigarðinn í Skútuvogi segist vart geta hugsað sér að starfa áfram sem leigubílstjóri. Hann segir að oft sé illa vegið að leigubílstjórum, sem eru einungis að reyna að vinna vinnuna sína og þjónusta fólk. 

Leigubílstjórinn, sem kýs að koma ekki fram undir nafni, er 63 ára gamall og var mikið sár eftir árásina og var fluttur á bráðamóttöku í sjúkrabíl.

Í tilkynningu lögreglu morguninn eftir árásina segir að hún hafi komið að vettvangi eftir að tveir karlmenn „veittust að“ leigubílstjóra í höfuðborginni. Leigubílstjórinn segir að það sé ekki rétt, þeir hafi verið þrír og þetta hafi verið fólskuleg líkamsárás. Hann sagði mbl.is sögu sína. 

Í tilkynningu lögreglu segir einnig að hún hafi fundið einn árásarmann og hann hafi gist fangageymslur. Lögregla hefur svo boðað leigubílstjórann í viðtal.

Frá Minigarðinum í Skútuvogi, þar sem hægt er að spila …
Frá Minigarðinum í Skútuvogi, þar sem hægt er að spila minigolf og panta mat og áfengi. Ljósmynd/Minigarðurinn

Sá strax að mennirnir voru í annarlegu ástandi

„Ég kem þarna einhvern tímann um hálftíu minnir mig. Ég fæ túr upp eftir og fer þangað sem mér er sagt að fara en síðan er túrinn afturkallaður en ég ákvað bara að fara upp að þessu húsi þarna. Og ég bíð þarna í kortér eða eitthvað og þá koma þrír piltar út, svona vel ölvaðir og víraðir eins og oft er sagt. Þeir voru á einhverjum öðrum efnum líka, það sást alveg langar vegalengdir.“

Því næst setjast þeir um borð í bílinn, einn með báðar hendur fullar af áfengum glösum og hinir tveir hvor með sitt glasið fullt af áfengi. Leigubílstjórinn segir þeim að þeir geti ekki sest upp í bílinn með áfenga drykki, sér í lagi í opnum ílátum, og brugðust þeir þá ókvæða við. Að sögn leigubílstjórans gerði einn mannanna sig líklegan til þess að hella úr glasinu inn í bílinn. 

Skemmdu bílinn áður en þeir réðust til atlögu

Allir voru mennirnir á þrítugsaldri, að því er leigubílstjórinn telur, og voru þeir að hans sögn mjög örir, hvekktir og reiddust þegar hann sagði þeim að ekki mætti hafa áfengi um borð í bílnum. 

„Ég var fljótur að afgreiða það og bað þá um að fara bara út. Þá fóru þeir áleiðis inn nema einn þeirra hellir yfir bílinn. Svo fara þeir inn og ég hugsaði með mér að ég yrði bara að skoða það síðar. Svo kortéri seinna koma þeir aftur út og segja: „Þetta er sami karlinn og áðan,“ eða eitthvað svoleiðis og reyna að fara inn í bílinn.“

Þá sagði leigubílstjórinn mönnunum að þeir gætu ekki farið með áfengi í bílinn og sögðust þeir þá ætla að borga svart fyrir farið, aukalega, fyrir að mega taka áfengi um borð og hvaðeina. Leigubílstjórinn sagði að reglurnar virkuðu ekki svoleiðis. 

Í sömu svipan tekur einn mannanna sig til og sparkar í glænýjan bíl leigubílstjórans. Þá stoppar leigubílstjórinn, stígur út úr bílnum og lítur aftan á hann til að skoða tjónið og spyr mennina hvort þeir séu færir um að borga fyrir skemmdirnar. 

„Þá verða tveir þeirra sérstaklega ógnandi og ég bendi á þá og segi þeim að nú taki þeir því bara rólega. Þá skvetta þeir úr glösunum yfir mig allan og í sömu andrá bara ganga þeir í mig, hver á eftir öðrum.“

Ljót meiðsli

Leigubílstjórinn segir að hann hafi fundið fyrir tveimur höggum áður en hann féll við og þegar hann ætlaði að standa upp fannst honum eins og sparkað hefði verið í hann. 

Hann tvíbrotnaði á kinnbeini, brotnaði á augnbotni, fékk djúpan skurð aftan á höfuðið og á vörina auk þess sem hann varð fyrir miklu hnjaski á hnjánum. Gleraugu hans brotnuðu í árásinni og segir leigubílstjórinn að lögregla hafi sagt að slíkar árásir séu sérstaklega hættulegar. Blessunarlega fóru þó ekki glerbrot í augu hans. 

Tilfinningalegt áfall sem og líkamlegt áfall

Leigubílstjórinn segir að áfallið sé ekki síður tilfinningalegt en líkamlegt. Hann hefur enn ekki treyst sér út í búð að kaupa sér í matinn og eins og fyrr segir er hann óákveðinn um hvort hann haldi áfram störfum sínum sem leigubílstjóri. 

„Sko þegar svona skeður, þeir fara alveg inn að innsta hring hjá manni. Það eru öll mörk brotin einhvern veginn. Ég hef ekki enn þorað út í búð að kaupa í matinn, sem betur fer á ég elskulega dóttur sem er hérna í bænum sem sér um mig. Svo hafa synir mínir tveir sýnt mér mikinn stuðning, sem og fleiri úr mínu nærsamfélagi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert