Þórólfur mælir heilshugar með bólusetningum barna

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Arnþór

Sóttvarnayfirvöld hér á landi mæla heilshugar með því að foreldrar þiggi boð um að bólusetja börn sín. Skipulögð bólusetning barna á aldrinum 12-15 ára hófst í Laugardalshöll í dag. 

Þórólfur segir markmið sóttvarnayfirvalda með bólusetningu barna vera að verja þau gegn alvarlegum áhrifum veirunnar, sem nú séu enn skæðari með tilkomu Delta-afbrigðisins. 

Hann segir að markmið með bólusetningu barna sé líka að reyna að minnka útbreiðslu smita í samfélaginu, þótt það sé ekki síður mikilvægt markmið nú þegar ljóst er að virkni bóluefna til þess sé minni en vonast var til. 

„Já, já við gerum það,“ segir Þórólfur spurður að því hvort hann mæli heilshugar með bólusetningu barna. 

„Fólk auðvitað ákveður sjálft hvort það mæti en við mælum með bólusetningunni á þessum aldri.“

Bólusetning barna hófst í dag í Laugardalshöll. Von var á …
Bólusetning barna hófst í dag í Laugardalshöll. Von var á allt að 6 þúsund börnum fæddum 2006 og 2007. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hætta á aukaverkunum hjá börnum ekki talin meiri eða öðruvísi

Spurður hvort aukaverkanir af völdum bólusetninga hjá börnum á aldrinum 12-15 ára séu meiri eða á einhvern hátt öðruvísi en hjá fullorðnum segir Þórólfur að svo sé ekki. Hann bendir á að engar alvarlegar aukaverkanir hafi komið fram í rannsóknum sem lágu til grundvallar markaðsleyfi fyrir bóluefni Pfizer í þessum aldurshópi. 

„Það er auðvitað alltaf þannig að þessar frumrannsóknir, sem liggja til grundvallar leyfisveitingu, þær eru gerðar kannski á einhverjum þúsundum einstaklinga og stundum þarf að bólusetja jafnvel hundruð þúsunda einstaklinga til þess að sjá hvort alvarlegar aukaverkanir komi fram. Það kom ekki fram í þeim rannsóknum og á þeim grundvelli fær þetta bóluefni Pfizer leyfi til þess að vera notað hjá börnum 12-15 ára og á þeim grunni hafa Bandaríkjamenn leyft og hvatt til notkunar á bóluefninu.

Svo hefur sóttvarnastofnun Evrópu bent á alvarlegri útbreiddari veikindi hjá börnum af völdum Delta-afbrigðisins, en fyrri afbrigði. Þannig að allt ber þetta að sama brunni, að það sé rétt að bólusetja börn.“ 

Gleðst yfir fækkun smita

Þórólfur segist ekki búinn að senda Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra tillögur um áframhaldandi sóttvarnaaðgerðir. Núverandi reglugerð þar um á að falla úr gildi á föstudag. 

Smitum hefur fækkað hægt og rólega undanfarna daga og segir Þórólfur að landsmenn geti glaðst yfir því. Árangurinn megi, sem fyrr, þakka samverkandi áhrifum af einstaklingsbundnum sóttvörnum, samkomutakmörkunum og aðgerðum á landamærum.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á blaðamannafundi þar sem hún kynnti þær …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á blaðamannafundi þar sem hún kynnti þær aðgerðir, sem falla úr gildi á föstudag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður hvort tilefni sé til tilslakana segir Þórólfur:

„Það er alltaf þannig að við erum að endurskoða þetta og megintilgangurinn með þessum aðgerðum núna er þessi útbreidda bylgja og ekki síst álag á spítalann. Sumir hafa verið að reyna að gera lítið úr því en það er sannarlega þannig að það er búið að leggja inn á Landspítala 86 einstaklinga frá 1. júlí, þar af 14 á gjörgæslu.

Spítalinn hefur þurft að draga saman í sinni starfsemi og leita að starfsfólki víða, þannig að þetta er búið að vera mjög erfitt fyrir spítalann og ég held að menn eigi ekki að gera lítið úr því. Þannig að það er mjög mikilvægt að bylgjan er að fara aðeins niður og ástandið hefur heldur lagast á spítalanum sýnist mér. Þannig að ég held að við getum skoðað næstu aðgerðir í því ljósi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert