Tillögum flóttamannanefndar um móttöku á flóttafólki frá Afganistan hefur verið skilað til félags- og barnamálaráðherra, dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir í samtali við mbl.is að tillögurnar verði lagðar fyrir ríkisstjórnarfund á morgun.
„Þetta eru í rauninni fyrstu tillögur. Flóttamannanefnd hefur nú lagt mat á hver fyrstu viðbrögð vegna ástandsins í Afganistan skuli vera og fram undan er að útfæra framkvæmdina, til dæmis eru flugleiðir sem áður voru opnar ekki til staðar lengur,“ segir Ásmundur Einar.
„Það er alveg ljóst að hvað sem gert verður í fyrstu skrefum, verður ótrúleg áskorun að fylgja því eftir með tilliti til flutningsleiða og svo framvegis.“
Ásmundur segir að íslenskt samfélag muni síðar þurfa að takast á við flóttamannavanda sem mun skapast af ástandinu í Afganistan í samvinnu við alþjóðasamfélagið.
„Tillögurnar eru komnar til mín, dóms- og utanríkisráðherra og verða ræddar á ríkisstjórnarfundi á morgun. Við gerum síðan ráð fyrir að hafist verði handa við að vinna eftir þeim leiðum sem mögulegar eru miðað við aðstæður,“ segir Ásmundur Einar.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði við mbl.is á föstudaginn að ljóst væri að Ísland tæki á móti fleira flóttafólki vegna ástandsins í Afganistan.