30 ætluðu vitandi vits smitaðir á skemmtistað

Gaukurinn á Tryggvagötu.
Gaukurinn á Tryggvagötu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hópurinn sem ætlaði sér að fara á karókíkvöld á Gauknum þrátt fyrir að öll væru með virkt Covid-smit telur 30 manns að sögn Magnúsar Bjarna Gröndal, rekstrarstjóra Gauksins. Hann segir málið á borði lögreglu og að starfsfólk Gauksins aðstoði hana við rannsókn málsins. 

Segir skiptinema eiga í hlut

Magnús segist í upphafi hafa heyrt af þessari ætluðu hópferð í gegnum fastakúnna á staðnum sem hafi haldið því fram að skiptinemar ættu hlut að máli. „Þetta er alveg þrjátíu manna hópur sem vísvitandi ætlaði smitaður niður í bæ og alveg sérstaklega til okkar,“ segir Magnús sem líkir þessu við að fá sprengjuhótun.

Hann segist ekki hafa þorað öðru en að loka staðnum eftir að hafa heyrt af þessari fyrirætlan:

„Við vildum frekar taka höggið. Aðrir barir og skemmtistaðir eru núna að berjast fyrir því að fá lengri afgreiðslutíma og ég vildi sýna það í verki að við séum fagfólk sem ber ábyrgð á okkar hluta í þessari baráttu. Ég sá mér ekki annað fært en að loka bara í staðinn fyrir að setja af stað bylgju númer x.“

Ekki náðist í lögregluna á höfuðborgarsvæðinu við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert