Þrjár fjölskyldur sem hafa dvalið í Afganistan eru nú komnar til Íslands. Allir í fjölskyldunum þremur eru með íslenskan ríkisborgararétt eða dvalarleyfi hér á landi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu á vef stjórnarráðsins.
Ferðalögum fjölskyldnanna er lýst í tilkynningunni: „Annars vegar er um að ræða tvær fjölskyldur sem komu hingað til lands nú síðdegis eftir að hafa komist með flugi frá Kabúl í Afganistan til Tbilisi í Georgíu og þaðan til Finnlands. Stjórnvöld í Finnlandi gengust fyrir fluginu.
Hins vegar er fjölskylda sem fór með flugi ásamt nokkrum vandamönnum sem dönsk stjórnvöld skipulögðu frá Afganistan. Fólkið flaug í gegnum Islamabad í Pakistan á leið sinni til Kaupmannahafnar og lenti það svo í Keflavík í fyrrinótt.“
Fólkið er nú í sóttkví og hefur gengist undir skimun vegna Covid-19. Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins, sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn og Helsinki auk fastanefndar Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu höfðu milligöngu um heimflutninginn.
Stjórnvöldum Danmerkur og Finnlands eru færðar sérstakar þakkir í tilkynningu ráðuneytisins.
Frá því að talíbanar náðu völdum í Afganistan hafa ríflega 58.700 Afganar og útlendingar flúið landið samkvæmt frétt CNN um málið. Joe Biden forseti Bandaríkjanna ætlar sér að draga allt herlið úr Afganistan fyrir 31. ágúst en bandamenn höfðu þrýst á hann að framlengja þann frest til þess að geta bjargað fleirum úr landinu.