86% treysta almannavörnum  – aldrei mælst minna

Þríeykið á einum af sínum fjölmörgu fundum.
Þríeykið á einum af sínum fjölmörgu fundum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um 86% landsmanna segjast treysta almannavörnum og heilbrigðisyfirvöldum vel til þess að takast á við kórónuveirufaraldurinn. Þá taka 7% ekki afstöðu til þess en 7% segjast treysta þeim aðilum illa. Þetta eru niðurstöður nýjasta þjóðarpúls Gallup.

Traust til almannavarna hefur aldrei mælst minna, en verður þó enn að teljast ansi mikið. 

55% svarenda segjast treysta ríkisstjórninni til þess að takast á við efnahagsleg áhrif kórónuveirufaraldursins. 

Karlar eru þá aðeins ólíklegri til þess að treysta almannavörnum (85%) en konur (87%). Mest mælist traust til almannavarna og heilbrigðisyfirvalda hjá fólki 60 ára og eldra (94%) en minnst hjá fólki 30 ára og yngra (74%).

Ekki er mikill munur á trausti íbúa höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar, en íbúar höfuðborgarsvæðisins eru örlitlu líklegri til þess að treysta almannavörnum og heilbrigðisyfirvöldum til þess að takast á við kórónuveirufaraldurinn. 

Munur á tekjuhópum

Minnst er traustið hjá fólki með lægri tekjur en 400 þúsund krónur á mánuði (69%) en mest hjá fólki með 800-999 þúsund krónur á mánuði (93%). Athygli vekur að fólk með tekjur á bilinu ein milljón til 1.249 þúsund krónur á mánuði (84%) er ólíklegra til þess að treysta almannavörnum og heilbrigðisyfirvöldum en fólk í bæði næsta tekjuhópi fyrir ofan (90%) og fyrir neðan (93%). 

Stuðningsmenn Vinstri grænna eru líklegastir til að bera traust til almannavarna og heilbrigðisyfirvalda (97%) en stuðningsmenn Pírata eru þar ólíklegastir (75%). Þeir sem skila auðu eða segjast ekki myndu kjósa bera þó minnst traust (68%).

Þá ber tæplega helmingur óbólusettra traust til almannavarna og heilbrigðisyfirvalda en 88% fullbólusettra. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert