Hafa áhyggjur af áhrifum á skuldsetningu heimila

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stýrivaxtahækkanir sem Seðlabanki Íslands kynnti í dag geta haft áhrif á almenning, sérstaklega ef viðbrögð lánastofnana við hækkuninni verða mikil. Þetta segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, við mbl.is. 

Hún segir að vel verði fylgst með viðbrögðum lánastofnana og segist hafa áhyggjur af því að nú sé verið að sigla inn í vaxtahækkanaskeið. 

„Við höfum auðvitað töluverðar áhyggjur að við séum að fara inn í vaxtahækkanaskeið. Hækkun stýrivaxta getur komið mjög illa við þá sem eru með breytilega vexti. Við munum í kjölfarið fylgjast með því hver viðbrögð lánastofnana verða, af því það skiptir almenning náttúrulega töluverðu máli,“ segir Drífa. 

Stýrivaxtalækkun skilaði sér skammt og því má hækkun ekki bitna á lántakendum

Drífa bendir á að ASÍ hafi áður gagnrýnt lánastofnanir fyrir að skila stýrivaxtalækkunum hratt og örugglega til lántakenda og því verði því fylgt eftir ef stýrivaxtahækkanir verði látnar bitna mjög á þeim hópi. 

„Í stærra samhengi höfum við áhyggjur hvernig þetta muni koma við einstaklinga, sem hafa skuldbundið sig fyrir húsnæði. Við ætlumst til þess að seðlabankinn fari ekki í stýrivaxtahækkun eftir að hafa lækkað vexti mjög skarpt, þannig viljum við að seðlabankinn taki inn í reikningsdæmið áhrif stýrivaxtahækkunar á skuldsetningu heimilanna,“ segir hún. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka