Sex mánaða árshlutauppgjör Reykjavíkurborgar var afgreitt í borgarráði í dag. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta Reykjavíkurborgar var jákvæð um 11.550 milljónir króna en áætlanir gerðu ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu um 2.269 milljónir. Rekstrarniðurstaða A-hluta, sem er að hluta eða öllu leyti fjármagnaður með skatttekjum, var neikvæð um 7.322 milljónir króna.
Fram kemur í tilkynningu frá borginni, að niðurstaða A- og B-hluta sé 13.819 milljónum betri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun fyrir árið 2021.
„Betri niðurstöðu má einkum rekja til matsbreytingu fjárfestingaeigna hjá Félagsbústöðum, áhrifa hækkaðs álverðs og tekjufærslu gengismunar vegna styrkingar krónunnar frá áramótum hjá Orkuveitunni. Afkoma samstæðunnar var 16.054 milljónum króna hærri á fyrstu sex mánuðum þessa árs en á sama tímabili í fyrra,“ segir í tilkynningu borgarinnar.
Fram kemur, að heildareignir samstæðunnar hafi í lok júní numið 745.378 milljónum króna en heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 397.078 milljónir. Eigið fé var 348.300 milljónir en þar af var hlutdeild meðeigenda 12.979 milljónir. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar er nú 46,7% en var 47,0% um síðustu áramót.
Sem fyrr segir, var rekstrarniðurstaða A-hluta neikvæð um 7.322 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 7.994 milljónir.
„Frávik frá áætlun skýrist einkum af því að útsvarstekjur voru um 3.115 milljónum króna yfir áætlun en launaútgjöld voru 2.610 milljónum yfir fjárheimildum sem að hluta til má rekja til aðgerða vegna COVID-19,“ segir í tilkynningunni.
Tekið er fram að útbreiðsla og áhrif Covid-19 faraldursins á heimsvísu hafi haft mikil fjárhagsleg áhrif á Reykjavíkurborg og álag hafi verið umtalsvert á stofnanir borgarinnar.
„Viðbrögð stofnana hafa valdið talsverðum viðbótarútgjöldum í rekstri borgarinnar af þeim sökum. Fjárhagsstaða borgarinnar er þó sterk og hefur hún styrk til að taka á sig veruleg áföll vegna afleiðinga faraldursins,“ segir í tilkynningunni.