Kannast ekki við tilkynningu um hópnauðgun

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta.
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, segir það ekki rétt að óformleg tilkynning um hópnauðgunarmál hafi borist frá samtökunum á fundi þeirra með Knattspyrnusambandi Ísland á sunnudag.

Í viðtali við fréttastofu Vísis segir Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra jafnréttismála hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkur, sem leiðir nýjan starfshóp um jafnréttismál hjá KSÍ að þeim hafi verið tjáð að vitað væri um aðra hópnauðgun á fundinum á sunnudag.

„Ég kannast ekki við það. Ég veit ekki alveg hvaða mál það ætti að vera,“ segir Steinunn. 

Hún segir að fundurinn með KSÍ hafi snúist um hvernig sambandið geti tekist bet­ur á og komið í veg fyr­ir kyn­ferðis­brot. „Við vorum ekki að fara yfir einhver einstök mál brotaþola."

Uppfært 13:10

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra jafnréttismála hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkur, segir í skriflegu svari til mbl.is að um misskilning hafi verið að ræða á milli hennar og blaðamanns Vísis. 

Hanna Björg Vil­hjálms­dótt­ir, fram­halds­skóla­kenn­ari og formaður jafn­rétt­is­nefnd­ar Kenn­ara­sam­bands Íslands, sem einnig sat fundinn á sunnudag tjáði Kolbrúnu um að hún hefði vitneskju um fleiri frásagnir um kynferðisbrot knattspyrnumanna og þá m.a aðra hópnauðgun. „Steinunn og Stígamót áttu ekki þátt í því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert