Ýmislegt er í boði í bólusetningu gegn Covid-19 á Suðurlandsbraut 34 í Reykjavík alla virku dagana í þessari og næstu viku á milli 10.00 og 15.00. Öll óbólusett og hálfbólusett, 12 ára og eldri, sem eru með íslenska kennitölu geta komið í bólusetningu á þessum tíma.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Bóluefni allra bóluefnaframleiðenda sem hafa fengið markaðsleyfi hér á landi standa fólki til boða.
„Bóluefnin Pfizer, Moderna og Jansen eru notuð alla virka daga en bóluefnið AstraZeneca er eingöngu í boði á föstudögum,“ segir í tilkynningu heilsugæslunnar.
Þá er örvunarskammtur í boði fyrir þá sem fengu bóluefni Janssen fyrir að minnsta kosti 28 dögum síðan. Slíkir skammtar eru einnig í boði fyrir fólk sem er 60 ára og eldra ef sex mánuðir eru liðnir frá seinni bólusetningu.
„Bólusetningadagar fyrir þennan hóp verða líka auglýstir reglulega.“
Börn á aldrinum 12 til 15 ára þurfa að vera í fylgd með forráðamanni.
Einstaklingur án íslenskrar kennitölu má ekki mæta í bólusetningu fyrr en staðfesting á skráningu í bólusetningarkerfið hefur borist. Slík skráning fer þannig fram að einstaklingar sem ekki hafa íslenska kennitölu senda tölvupóst á bolusetning@heilsugaeslan.is.
„Fram þarf að koma: Nafn, fæðingardagur og ár, kyn, upprunaland, netfang og helst íslenskt GSM símanúmer til að taka við SMS boði. Ef einstaklingur er hálfbólusettur þurfa upplýsingar um bóluefni og tímasetningu að fylgja.“