Ragnar Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er sagður hafa gengið berserksgang á heimili sínu aðfaranótt 5. júlí 2016 og meðal annars haft þar í hótunum við þáverandi eiginkonu sína.
Þetta hefur Fréttablaðið eftir heimildum sínum og greinir frá á vef sínum í kvöld.
Segir í umfjöllun blaðsins að þegar lögreglan kom á staðinn hafi Ragnar flúð vettvang. Samkvæmt heimildum þess hafi íbúðin verið í slæmu ástandi og sjáanlegar skemmdir víða.
Knattspyrnusambandið hafi þá fengið upplýsingar um málið frá nágrönnum hjónanna, en ekkert aðhafst.
Tekið er fram að fyrr um kvöldið, eða hinn 4. júlí, hafi komu landsliðsins til Íslands eftir vel lukkaða för til Frakklands á EM í knattspyrnu verið fagnað í miðborg Reykjavíkur.
Fréttablaðið hefur eftir heimildum sínum að Ragnar hafi verið boðaður í skýrslutöku nokkrum dögum síðar, og mætt ásamt lögmanni sínum til hennar.
Þá hafi hann neitað að hafa beitt eiginkonu sína ofbeldi eða sýnt ógnandi hegðun.
Fullyrt er sömuleiðis að lögreglan hafi tekið skýrslu af þáverandi eiginkonu Ragnars um kvöldið.
„En þrátt fyrir skýrslu hennar, ástand íbúðarinnar, símtal nágranna við starfsmann Neyðarlínunnar og sjáanlegar skemmdir á íbúðinni felldi lögreglan málið niður. Ákæra var aldrei gefin út, hvorki fyrir eignaspjöll né heimilisofbeldi,“ segir í umfjöllun blaðsins.