Benedikt Rúnar Guðmundsson, þjálfari kvennalandsliðsins í körfubolta, segir frá því í færslu á Facebook að óprúttinn aðili hafi falsað og birt óviðeigandi færslur í hans nafni á Instagram. Hann leitaði til lögreglu vegna málsins og lagði inn kæru. Hann dró síðan kæruna til baka þegar sá sem stóð á þetta hafði samband og baðst afsökunar.
Benedikt greinir frá því að viðkomandi hafi sent svokölluð „memes“, eða myndefni sem alla jafna er ætlað að sýna eitthvað í spaugilegu ljósi, sem gáfu til kynna að Benedikt væri haldinn kvenfyrirlitningu. Hann segir að fjallað hafi verið um málið á vef Mannlífs og með færslunni á Facebook kveðst Benedikt vilja útskýra það sem gerðist í raun og veru.
Hann segist hafa stofnað Instagram-reikning ekki alls fyrir löngu þar sem hann hafi sett inn ljósmyndir og sett efni í í „stories“, sem eru sögufærslur sem lifa í einn sólarhring á Instagram.
„Þegar Covid skall á af hörku og maður var innilokaður heima að drepast úr leiðindum fór ég að sjá myndir sem kallast memes og eru svona hálfgerðir brandarar. Miðaldra ég vissi fyrst ekkert hvað þetta var en fór að sjá þetta á hinum ýmsu miðlum og fá svona sent. Þetta létti mér lundina og ég ákvað að áframsenda á ákveðinn hóp af fólki. Síðan Covid skall á hef ég sent ca 300 memes. Flest voru tengd Covid, einhver voru skot á sjálfan mig, einhver skot á karlmenn, einhver skot á konur og önnur skot á hitt og þetta. Ekkert af þeim átti að vera móðgandi né sýndi hold á hvorki karl- eða kvenmanni. Markmiðið var bara að áframsenda húmor og létta fólki lundina,“ skrifar Benedikt.
Hann bætir við, að hann fái svo skilaboð frá fyrirliða kvennalandsliðsins, sem innihéldu meðal annars 7-8 „memes“ af rúmlega 200 sem hann hafði gert.
„Hún hafði fengið þetta sent sjálf og þá var búið að sjóða þessi 7-8 memes saman. Þegar búið var að sjóða þau öll saman var skiljanlegt að fyrirliðinn hefði áhyggjur, meðal annars af því hvort ég væri haldinn kvenfyrirlitningu og stundaði það að skjóta á konur í frítíma mínum. Það sem var verst var að 1-2 voru á gráu svæði að mínu mati en ég hafði aldrei séð þau áður. Samt var eins og ég hefði sent þau frá mér. Það var hrikaleg upplifun að sjá eitthvað, sem ég vissi að ég myndi aldrei senda frá mér en samt eins og ég hefði sent það. Ég var farinn að efast um sjálfan mig og farinn að velta fyrir mér hvort ég væri búinn að tapa glórunni,“ skrifar Benedikt.
Hann kveðst hafa staðið með sjálfum sér og leitaði til lögreglunnar vegna málsins. „Það kom síðan í ljós einhver hafði lagt það á sig að falsa í mínu nafni. Ég get ekki lýst því hversu mikil vonbrigði það voru að komast að því. Að einhver leggi slíkt á sig til að koma höggi á mann brýtur mann niður. Eftir mörg ár í mínum bransa hefur maður þurft að taka marga slagi og verið umdeildur að sama skapi. En þarna upplifði ég eins og einhver vildi mér mjög illt. Ég lagði inn kæru til lögreglunar í Reykjavík og fékk fund nokkrum dögum seinna. Áður en kom að þeim fundi fékk ég hringingu frá manneskjunni sem hafði tekið saman þessi memes og sent á fyrirliða liðsins. Ég ætla ekki að gefa upp hver sá aðili er og dró ég kæruna til baka eftir að viðkomandi baðst afsökunar á þessu. Ég fyrirgaf viðkomandi og við áttum gott spjall og kvöddum í góðu,“ segir Benedikt.