Friðsamleg mótmæli eru hafin fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ í Laugardal, tæpur tveimum tímum áður en landsleikur Íslands og Rúmeníu fer fram í undankeppni HM 2022. Mótmælin hafa farið friðsamlega fram en lögregla er á vettvangi.
Aðgerðarhóparnir Öfgar og Bleiki fíllinn boðuðu til mótmælanna. Upphaflega var það undir yfirskriftinni „stjórnin út“ þar sem vísað var til þess að stjórn KSÍ yrði að stíga til hliðar. Í ljósi þess að sitjandi stjórn tók ákvörðun um að víkja á mánudag krefjast mótmælendur þess nú að Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segi af sér. Hún er sem stendur í leyfi.
„SKÍTINN ÚR SKÚFFUNUM. KSÍ. Klöru út,“ sést ritað á eitt skiltanna og „Gerandi minn var góður strákur“ á öðru.
Mikil gagnrýni hefur dunið á Knattspyrnusambandinu undanfarna daga eftir að upp komst að Guðni Bergsson, þáverandi formaður, hafði farið með rangt mál í viðtali í Kastljósi þar sem hann fullyrti að engin kynferðisbrotamál sem vörðuðu landsliðsmenn hefðu komið inn á borð sambandsins.
Hefur hann nú sagt af sér ásamt stjórn Knattspyrnusambandsins.
Hávær umræða fór af stað í kjölfarið um ofbeldis- og nauðgunarmenningu innan knattspyrnuheimsins. Hafa styrktaraðilar KSÍ nú farið fram á að stofnunin taki skýra og trúverðuga stefnu í þessum málum.