Lögreglan hafði afskipti af fjórum líkamsárásum í nótt, þar af voru þrjár gegn konum, kemur fram í dagbók lögreglu.
Ráðist var á konu í stigagangi við heimili hennar í Laugardalnum. Konunni var hrint og hún skölluð í andlitið. Árásaraðili fór inn í íbúð á stigaganginum. Við árásina brotnuðu gleraugu konunnar og var hún með áverka í andliti eftir árásina.
Rétt eftir miðnætti var tilkynnt um aðra líkamsárás gegn konu í miðbænum. Þegar lögreglumenn ræddu við árásarmanninn brást hann við með því að hrækja á þá. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu sökum ástands.
Kona var slegin í andlitið á veitingahúsi í miðbænum. Árásaraðili var farinn af vettvangi þegar lögregla kom.
Þá var tilkynnt um aðra líkamsárás við veitingahús í miðbænum rétt eftir klukkan eitt. Ráðist á ölvaðan mann og var hann með skurð fyrir neðan auga eftir árásina. Maðurinn fékk aðhlynningu frá áhöfn sjúkrabifreiðar á vettvangi. Árásaraðilar voru farnir af vettvangi.