Almar Þór Möller, lögmaður Kolbeins Sigþórssonar, segir það rangt að Jóhanna Helga Jensdóttir og Þórhildur Gyða Arnarsdóttir hafi fengið boð frá lögmanni Kolbeins um að skrifa undir þagnarskyldusamning gegn greiðslu á 300.000 krónum.
Almar segist hafa átt í samskiptum við réttargæslumann Jóhönnu Helgu, og þann 3.apríl 2018 hafi honum borist tölvupóstur frá réttargæslumanninum sem var svohljóðandi:
„Hún sagðist mögulega vera tilbúin að falla frá kærunni gegn greiðslu miskabóta, bað mig að skoða það og heyra í þér. Ég kíkti á dómafordæmi og fyrir brot gegn 209./217. hafa miskabæturnar verið í kringum 300 þús kall.
Að teknu tilliti til þess geri ég eftirfarandi tillögu:
Miskabætur: 300.000,-
Lögmannskostnaður: 109.120,- (útkall (54þús) + 2 tímar (17þús))
ALLS: 409.120
Er þetta eitthvað sem þið gætuð mögulega fallist á?“
Því segir hann að staðhæfingin Jóhönnu í kvöldfréttum Stöðvar 2 þann 2. september um að þær höfðu fengið boð frá lögmanni um að skrifa undir þagnarskyldusamning ranga.
Niðurstaðan í málinu var sú að Kolbeinn greiddi samtals sex milljónir króna sem sáttargreiðslu og segir hann þá fjárhæð hafa verið í engu samræmi við atvik málsins.
Hörður Felix Harðarson og Almar Þór Möller eru lögmenn Kolbeins Sigþórssonar í þessu máli, en Hörður skrifaði í gær grein þar sem hann gagnrýndi ákvörðun KSÍ í málinu og sagði ekki rétt að hann hefði boðið þagnarskyldusamning.
Uppfært kl 11:00:
Í grein Harðar í gær kom fram að hann hefði ekki starfað fyrir KSÍ né boðað Þórhildi á sáttafund með stjórnarmeðlimum sambandsins. Hann hafi heldur ekki verið í beinum samskiptum við Þórhildi eða boðið þagnarskyldusamning.
Almar segir í samtali við mbl.is hann hafi verið í samskiptum við réttargæslumann Jóhönnu, en að það sama eigi við um hann og Hörð. Hann hafi ekki verið í beinum samskiptum við Jóhönnu fyrr en á sáttafundinum sjálfum. Þá hafi Almar ekki starfað fyrir KSÍ eða boðað Jóhönnu á sáttafund með stjórnarmeðlimum sambandsins og hann hafi aldrei boðið þagnarskyldusamning. Ítrekar hann að endanlegur samningur sem var undirritaður hafi ekki þagnarskylduákvæði.
Fram kom í viðtali RÚV við Þórhildi á föstudaginn fyrir viku að hún hafi ekki skrifað undir þagnarskyldusamning.