Guðmundur Franklín Jónsson formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins og Glúmur Baldvinsson varaformaður flokksins fordæma brandara Eyjólfs Árnasonar, oddvita Flokks fólksins í norðvesturkjördæmi, um Pólverja. Brandaranum skilaði Eyjólfur inn í svokallaðri oddvitaáskorun á Vísi um helgina.
Í brandaranum, sem birtur var undir þeim formerkjum að vera fimmaurabrandari, sagði Eyjólfur sögu af Íslendingi sem henti Pólverja niður úr Eiffel turninum því of mikið af Pólverjum væri á Íslandi. Brandarinn var tekinn út skömmu eftir að hann birtist.
Guðmundur, stundum kallaður Gúndi, og Glúmur tóku málið fyrir í beinni útsendingu á Facebook-síðu Gumundar í dag. Þar segja þeir brandarann vera ógeðslegan og „ekki einu sinni fyndinn“.
„Maðurinn er alveg gúgúgaga,“ sagði Guðmundur.
Anna Karen Svövudóttir sem skipar 3. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi gagnrýndi brandarann í skoðanapistli sem birtist á Vísi í dag. Þar spyr hún hvort tilgangurinn með honum hafi verið að móðga, særa eða gera lítið úr samfélagshópnum.
Anna er sjálf frá Póllandi og segir það vera erfitt að brandarinn hafi verið saklaus.
„Það er alltaf gott að grínast, en maður þarft að vita hvers konar brandarar eru viðeigandi og þá einnig hvort það sé þess virði að deila þeim opinberlega. Fólk gerir ekki grín að fólki sem það telur sig fulltrúa fyrir. Í dag saklaus brandari og á morgun hvað? Svona saklausir brandarar hafa því miður mikinn kraft, því þeir eru endurteknir af börnum, fullorðnum í skólum og á vinnustöðum. Hvernig á Pólverjum að liða við að heyra svona brandara?“ skrifar Anna í pistli sínum.
Hún lýkur pistlinum á því að benda á að Pólverjar séu stærsti hópur innflytjenda á Íslandi og að þeir starfi á fjölmörgum sviðum atvinnulífsins. „Við sem komum frá Póllandi og höfum tekið hér virkan þátt í samfélaginu, lagt okkar af mörkum við að gera samfélagið hér á Íslandi jafn gott og það raunverulega er – erum líka kjósendur. Við samþykkjum þetta ekki. Það er með öllu óásættanlegt,“ segir Anna í lokaorðum sínum.