Fyrsta og stærsta heildstæða lofthreinsi- og förgunarstöðin í heiminum, Orca, var opnuð við Hellisheiðarvirkjun í dag. Opnun stöðvarinnar er byltingarkennt skref í loftslagsmálum, segir Cristoph Buettler, yfirmaður loftslagsstefnu hjá Orca, í samtali við mbl.is.
Orca er samstarfsverkefni svissneska fyrirtækisins Climeworks, Orku náttúrunnar og dótturfyrirtækis þess Carbfix.
„Um er að ræða glænýja tækni í lofthreinsun og -förgun, sem er skilvirkari og áhrifameiri en önnur tækni sem hefur verið notuð í þessum tilgangi fram að þessu,“ segir Christoph.
Stutt er síðan IPCC, sérfræðingahópur Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna, gaf frá sér yfirlýsingu um brýna þörf á föngun koltvísýrings. Þá staðfestir skýrsla nefndarinnar enn fremur hversu mikilvægt það er að draga stórkostlega úr útblæstri og fjarlægja varanlega þann útblástur sem ekki er hægt að komast hjá eða sem hefur áður verið losaður út í andrúmsloftið.
Opnun Orca hér á landi hefur bein og tafarlaus áhrif en hvert tonn sem Orca fangar úr andrúmsloftinu er tonn sem á ekki þátt í hlýnun jarðar. Orca er því gríðarstór áfangi í beinni loftföngun en stöðin getur fangað 4.000 tonn af koltvísýringi á ári hverju, sem hún fjarlægir beint úr andrúmsloftinu á öruggan hátt og fargar því varanlega með því að breyta koltvísýringnum í stein með náttúrulegri aðferð Carbfix.
Stöðin er stökkpallur fyrir Climeworks, sem sérhæfir sig í að fanga koltvísýring úr andrúmsloftinu og farga honum varanlega en fyrirtækið stefnir að því að geta fangað megatonn fyrir síðari hluta þessa áratugar.
„Fyrir utan það að draga úr loftslagsmengun hér á Íslandi trúi ég því að loftslagshreinsun og -förgun geti verið frábært viðskiptatækifæri fyrir Íslendinga, hafi þeir áhuga á að auka umsvif starfseminnar og þannig eiga stóran þátt í baráttunni við loftslagsvána í heiminum öllum,“ segir Christoph að endingu.