„Það er geggjað að við sem lið séum að taka þátt í að skrifa söguna og bara frábært hvað það er búið að vera mikil framþróun í kvennaboltanum. Að það séu einhverjir peningar undir, að liðin geti grætt á því að vera með kvennaliðin,“ sagði Agla María Albertsdóttir, leikmaður Breiðabliks, sem var hæstánægð með 3-0 sigur gærdagsins á móti Osijek sem tryggði Breiðabliki sæti í 16 liða riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Þetta er í fyrsta sinn sem riðlakeppni er haldin í keppninni kvenna megin og því um sögulega stund að ræða.
Agla María skoraði sjálf þriðja mark leiksins á 48. mínútu en Breiðablik komst snemma yfir með tveimur mörkum strax á fyrstu 10 mínútum leiksins. „Við negldum þetta gjörsamlega með þriðja markinu. Þá var þetta bara komið. Þetta var mjög góð tilfinning. [...] Við vissum fyrir leikinn að við máttum ekki lenda undir. Þegar við komumst í tvö núll þá var þetta minna stress og þær þurftu að sækja meira og þá opnaðist pláss fyrir okkur þannig þetta hentaði okkur mjög vel.“
Að sögn Öglu Maríu var mikinn stuðning að finna í stúkunni sem var full af stuðningsmönnum. „Það voru 800 manns á leiknum sem eru tölur sem eru ekkert algengar í kvennaboltanum hérna heima. Þetta var fáránlega vel gert, það skiptir sköpum að fá svona stuðning, það var geggjað.“
Breiðablik hefur áður komist langt í Meistaradeild Evrópu þegar keppnin var útsláttarkeppni en árið 2019 mættu þær sterku liði PSG í 16 liða úrslitum og töpuðu þá báðum leikjunum. Fyrri árangur í keppninni hefur þó skilað þeim mikilvægum stigum sem gerir það að verkum að liðið er nú í öðrum styrkleikaflokki af fjórum í riðlakeppninni með Arsenal, Wolfsburg og Lyon.
Þess ber að geta að Wolfsburg hefur unnið Meistaradeildina tvisvar og Lyon sjö sinnum, flest allra liða.
Aðspurð segir Agla María það skrítna tilfinningu að vera í styrkleikaflokki meðal þessara stórliða. Segir hún það muna miklu fyrir Breiðablik að hafa náð þessu sæti enda auki það líkurnar töluvert á góðum árangri í keppninni. „Við eigum enn þá meiri séns í liðin sem eru í þriðja og fjórða styrkleikaflokki.[...] Það er alveg magnað fyrir svona íslenskt lið að vera svona ofarlega, í svona háum styrkleikaflokki.“
Vonar Agla María nú að framþróunin í kvennaboltanum haldi áfram með sama hætti og hún hefur verið að gera undanfarin ár enda skili það sér klárlega í gæðum og árangri félagsliðanna. Segir hún aukna áherslu á umfjöllun og umgjörð í kringum kvennaliðin auka áhuga og bæta kjör knattspyrnukvenna almennt.
„Það er alveg mikil framþróun þannig það má alveg koma hrósi til fjölmiðla og fleiri. Það þarf bara að halda áfram á sömu braut. Maður sér að sífellt fleiri leikmenn hafa verið að fara í góð lið erlendis og umgjörðin þar er frábær. Þetta er að verða miklu meira atvinnumannaumhverfi erlendis. Að það sé verið að setja meiri pening í þetta gerir það að verkum að hægt er að borga hærri laun og þá fylgist þetta allt að. Þá geta leikmenn einbeitt sér betur að fótboltanum og gæðin aukast.“
Ingibjörg Auður Guðmundsdóttir, formaður meistaraflokksráðs kvenna hjá Breiðabliki, tekur undir orð Öglu Maríu og telur hún aukinn metnað við umgjörð og umfjöllun í kringum kvenna liðin skila sér í árangri þeirra.
„Þetta helst klárlega í hendur. Það eru rosa mörg félög að gera rosa góða hluti. Maður sér það bara á deildinni í ár. Bæði í Pepsi-max deildinni og Lengjudeildinni, það er spenna alveg fram í blálokin hvaða lið komast upp og hvaða lið falla. Gæðin eru að aukast og ég held að umgjörð og umfjöllun eigi bara rosa stóran hluta af því.“
Telur hún það hafa komið í ljós undanfarin ár hve áhugi fyrir kvennaknattspyrnu er mikill. Hafi það til að mynda sýnt sig á síðasta heimsmeistaramóti þar sem áhorfstölurnar voru mjög góðar. Er þá einnig mikinn stuðning að finna heima í Kópavoginum.
„Við erum rosalega þakklát fyrir okkar stuðningsfólk við höfum alltaf verið með góðar áhorfendatölur. [...] Stemningin í gær var ótrúlega flott, stuðningsmannasveit Breiðabliks Kópacabana var mætt og svo bara stuðningsmenn Breiðabliks, iðkendur í yngri flokkum og foreldrar með. Þetta var ótrúlega flott. Maður fékk bara gæsahúð.“
Segir hún jafnframt stóruliðin erlendis sífellt gera sér betur grein fyrir möguleikunum sem eru í boði í kvenna knattspyrnuheiminum. „Félögin úti eru að vakna. Stóru liðin, PSG, Lyon, Chelsea og Arsenal, þau eru ekki bara að þessu til að vera með kvennabolta, þetta er bara gróði. Þau eru að sjá að ef þú leggur tíma og peninga í kvennaboltann, þá kemur hann til baka. Þetta er að stækka og er að verða miklu stærra svið.“
Telur Ingibjörg ekki ólíklegt að með þessu áframhaldi fari Íslendingar að sjá fleiri lið frá sér í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Er nú mikilvægt að halda vinnunni áfram enda skili það sér auðsjáanlega í árangri liðanna.