Fjórar nýjar brýr voru vígðar við hátíðlega athöfn á Suðurlandi í gær. Sigurður Ingi Jóhannesson samgönguráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar opnuðu formlega brýrnar.
Um er að ræða fjórar brýr á hringveginum sunnan við Vatnajökul, yfir Steinavötn, Fellsá, Kvíá og Brunná. Fækkar því einbreiðum brúm á Suðurlandi úr 36 í 32.
„Athöfnin gekk einstaklega vel og hér er veðurblíða og auðvitað gleði sem skein úr andlitum allra yfir þessum miklu samgöngubótum. Við erum búin að fækka einbreiðum brúm um fjórar á þessu ári,“ sagði Sigurður Ingi í samtali við blaðamann í gær.
„Það er verið að byggja þrjár til viðbótar sem verður lokið við á næsta ári. Þær eru stærri og verða byggðar yfir Jökulsá á Sólheimasandi, Núpsvötn og Hverfisfljót.“
Sigurður segir enn mikið verk að vinna og markmiðið sé að útrýma öllum einbreiðum brúm á hringveginum og samhliða umferðarmiklum hliðarvegum.
„Umferðin hefur margfaldast sérstaklega á þessu svæði, og til dæmis fjórfaldast í gegnum Öræfasveitina á stuttum tíma. Það er stór hluti af þeim vegfarendum sem er óvanur íslenskum aðstæðum og þekkir það ekki, að það sé algengt að það komi einbreið brú. Svo þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir umferðaröryggi á svæðinu.“