Eldgosið „á fullu“ í alla nótt

Eldgosið séð frá Seltjarnarnesi í gærkvöldi.
Eldgosið séð frá Seltjarnarnesi í gærkvöldi.

Eldgosið í Geldingadölum var í fullu fjöri í nótt og sást það vel úr mikilli fjarlægð, t.d. af Seltjarnarnesi. Skyggnið í dag er þó ekki gott og segist náttúruvársérfræðingur ekki geta mælt með því að fólk gangi að gosinu í dag, sérstaklega í ljósi þess hve slæm veðurspáin er síðdegis.

„Eldgosið er búið að vera á fullu í alla nótt. Við sáum mjög fallegan bjarma á myndavélinni og það er búið að vera mikið í gangi í nótt. Óróinn er enn uppi en skyggnið er lélegt svo við sjáum ekki alveg hvað er í gangi akkúrat núna en ég geri ráð fyrir því að það sé áframhaldandi virkni,“ segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Gosið hafði legið í dvala í um viku þegar það fór aftur af stað í gær. Aðspurð segir Lovísa í raun ekki vitað með vissu hvers vegna það tók sér hlé eða hvers vegna það fór aftur á stað. 

„Það virðist vera að þrýstingurinn falli og það taki bara tíma fyrir þrýstinginn til að ná honum aftur upp til að hann komist á yfirborðið. Það er líklegasta skýringin,“ segir Lovísa. 

Þá er ekki hægt að segja til um það hversu lengi gosið muni vera í fullu fjöri. 

Vara fólk við að ganga á hrauninu

Gular viðvaranir taka gildi víða um land síðdegis í dag og í kvöld og er Reykjanes inni á svæði sem verður fyrir barðinu á vonda veðrinu. Aðspurð segist Lovísa ekki geta mælt með því að fólk gangi að gosinu í dag. 

„Það er ekkert að sjá, það er svo mikil þoka og slæm veðurspá svo við mælum með því að fólk fari einhvern annan dag frekar.“

Eins og greint var frá í gær hefur hraun farið að brjóta sér leið upp á hraunyfirborðið á nokkrum stöðum í Geldingadölum. 

„Við vörum fólk við að labba á hrauninu vegna þess að þetta getur gerst hvar sem er, að það leiti í gamlar rásir og rjúfi sér farveg upp á yfirborðið,“ segir Lovísa um það.   

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert